141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:40]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni andsvarið. Ég ætla líka að láta í ljós ánægju mína með það sem hv. þingmaður nefndi svo að það komi fram, að verði umrætt frumvarp til að draga úr og afnema svokallaðar markaðar tekjur nái það væntanlega yfir þá 14. gr. sem hér er verið að setja inn nýja um Ríkisútvarpið. Það er vel. En þá hugsar maður samt að verið sé að setja lög um að markaðar tekjur eigi ekki að vera í því formi sem þær eru í dag. Síðan erum við með sérlög um Ríkisútvarpið og þá mætti líta svo á að sérlögin gengju lengra.

Ég ætla að vera minnug þessara orða hv. þingmanns á næsta kjörtímabili, að verði frumvarpið eins og hér hefur verið rætt um að lögum muni það ná til þessarar 14. gr. Þá breytist það sjálfkrafa í takt við nýtt frumvarp um afmarkaðar tekjur. Þetta hefur þá verið sagt úr ræðustól Alþingis. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir þau andsvör sem hann veitti við ræðu minni.