141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:47]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og fyrri ræðu hans í málinu. Ég tek almennt undir með hv. þingmanni varðandi forgangsröðun í ríkisfjármálum. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í ákveðna þætti sem snúa að stöðu fréttaflutnings af landsbyggðinni, vegna þess að ég komst ekki til þess áðan að veita andsvar við fyrri ræðu hans.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að í því frumvarpi sem fyrir liggur og varðar Ríkisútvarpið sé það nægilega tryggt að Ríkisútvarpið sinni því mikilvæga hlutverki sem það á að sinna og varðar m.a. fréttaflutning af öllu landinu. Telur hv. þingmaður ekki skynsamlegt að gera einhverjar breytingar á málinu hvað það snertir? Hvað segir hv. þingmaður um þróun í þessu efni á undanförnum árum? Hefur þróunin verið jákvæð hvað þennan þátt snertir eða neikvæð? Getum við með einhverjum hætti gripið inn í mál í þessu frumvarpi og gert ákveðnar breytingar til að styrkja stöðu landsbyggðarinnar? Fjallað er um það í frumvarpinu að mikilvægt sé að Ríkisútvarpið sinni þessum þætti, segi fréttir af mannlífi og því sem er að gerast á landinu öllu. Mörgum finnst hafa dregið úr því á undanförnum árum, en mig langar að spyrja hv. þingmann af því að hann er landsbyggðarmaður og vel að sér um atvinnulíf og það sem er að gerast á landsbyggðinni: Telur hv. þingmaður að frumvarpið tryggi nægilega vel, sem er svo mikilvægt, að fréttir séu sagðar af landinu öllu eða mætti gera það með einhverjum öðrum hætti?