141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður hefur nefnt oft þá aukningu á fjármagni sem Ríkisútvarpið fær og kemur fram í nefndarálitinu. Það er mjög eðlilegt að taka umræðu um þá niðurstöðu. Mig langar að biðja hv. þingmann um að svara þá þeirri ágætu spurningu sem þingmaðurinn sjálfur velti hér upp þegar hann spurði: Hvernig er forgangsraðað? Hvernig mundi hv. þingmaður forgangsraða öðruvísi varðandi þá upptalningu sem fram kom í ræðu hans?

Í 4. gr. segir að Ríkisútvarpinu sé heimilt að eiga hlut í fyrirtækjum sem framleiða, vinna eða dreifa dagskrárefni. Það kann að vera snjallt og nauðsynlegt til að auka flóruna í framleiðslu á innlendu dagskrárefni. Reyndar stendur ekki að það eigi að vera innlent, ég átta mig á því núna, en það hlýtur alla vega að eiga við um innlend fyrirtæki. Hefur það verið rætt í fjárlaganefnd, af því að hv. þingmaður situr í þeirri nefnd, að þegar fjármagn til stofnunarinnar er aukið hvort eðlilegt sé að fjármagn sé notað til að kaupa og eiga hlut í fyrirtækjum sem framleiða efni ásamt öðrum eða er hreinlegra að peningarnir séu notaðir til að kaupa efnið fyrst þörf er á því að auka fjármagn til starfseminnar?

Það eru þessar tvær spurningar; varðandi forgangsröðunina og félögin.