141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hv. þingmann hvernig hann mundi vilja ráðstafa þessum fjármunum með öðrum hætti þegar forgangsröðunin er gagnrýnd. Þá hljótum við að kalla eftir því að komið sé með aðrar hugmyndir um hvar setji eigi þá fjármuni sem þarna um ræðir, þ.e. hvað er mikilvægara.

Í þeirri fjárfestingaráætlun, eða hvað það hét nú sem ríkisstjórnarflokkarnir lögðu fyrir Alþingi, voru ýmis verkefni sem ekki eru til þess fallin að auka tekjur ríkissjóðs heldur auka þau beinlínis útgjöld án þess að bent sé á hvernig mæta eigi útgjöldunum með auknum tekjum eða hvernig ná eigi endum saman. Mér sýnist þá að enn og aftur hafi stjórnvöld verið að skrifa einhverja víxla fram í tímann sem aðrir þurfa að taka á, önnur stjórnvöld á öðrum tíma, líkt og virðist vera með þá útgjaldaaukningu sem almennt hefur verið boðuð á síðustu vikum og mánuðum hjá ríkisstjórnarflokkunum.

Ég spyr hv. þingmann um forgangsröðunina því að við hljótum að hafa ákveðnar skoðanir á því, ekki síst þegar takmarkað fé er til umráða, þegar skera þarf niður. Búið er að skera niður úti um allt land, hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni, búið er að skera niður í heilbrigðismálum, löggæslu og öðrum mikilvægum verkefnum. En núna virðast menn hafa tækifæri til að auka útgjöld og þá er það gert eins og hv. þingmaður benti á, með því að fara í ákveðin verkefni eins og Hús íslenskra fræða, náttúrugripasýningu o.s.frv. Ríkisútvarpið hefur væntanlega mætt niðurskurði með aðhaldi. Þá hljótum við líka að spyrja hvort verið sé að gefa þau skilaboð núna að stofnunin hafi svigrúm til að auka og þenja út fjárhag sinn sem nemur þeirri upphæð sem hv. þingmaður gagnrýnir hér.