141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn í umræðuna, ekki til þess í sjálfu sér að hafa miklar skoðanir á þessu af því að ég er ekki búinn að móta mér afstöðu mína til málsins heldur aðeins til að velta vöngum yfir því sem kom upp í huga minn þegar ég hlustaði á umræðuna. Ég hef svo sem oft velt þessu fyrir mér þegar ég hef hlustað á þær hugmyndir sem hafa sprottið upp, sérstaklega þegar ný framboð koma fram og hafa óneitanlega ekki alveg sömu stöðu og hin grónari framboð. Það hefur svo sem ekki komið í veg fyrir það að ný framboð hafi náð fótfestu. Þau hafa gert það yfirleitt í öllum kosningum þó að fæst þeirra hafi haft langan líftíma, sem vekur kannski upp ákveðnar spurningar. Það er ekki þá það forskot sem sú staðreynd gefur þeim að þau eru orðin hluti af Alþingi eða eru þingflokkur á Alþingi, heldur hafa aðstæðurnar frekar á ákveðnum tíma gert það að verkum að ný framboð hafa sprottið fram. Þau hafa hins vegar fæst átt mjög langan líftíma.

Nú veltir maður því dálítið fyrir sér í því ljósi hvaða staða getur verið að koma upp í íslenskum stjórnmálum að þessu leytinu. Sagt er að við getum átt von á að 20 framboð bjóði fram lista með einhverjum hætti í þessum kosningum. Það svarar til tveggja knattspyrnuliða án markmanns, 20 framboð. Þá vakna alls konar spurningar um rétt þeirra. Spurning vaknar um með hvaða hætti slíkt gæti verið fram sett þannig að það fengi eitthvert áhorf og yrði áhugavert. Er hugsunin sú að framboðin væru í rauninni ritstjórar sinnar dagskrár? Er það hugsað þannig að sjónvarp eða útvarp, í þessu tilviki Ríkisútvarpið, annaðist einhverja dagskrárgerð á sínum forsendum til að tryggja það til dæmis að einstök framboð sem væru loðin um lófana gætu ekki lagt meira í það. Þá spurningu væri gaman að hv. þingmaður dveldi aðeins við.