141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað staðið að löggjöf um Ríkisútvarpið og á sínum tíma undir forustu þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, voru sett lög um Ríkisútvarpið ohf. Þá var mikil andstaða við þau. Það var hins vegar liður í því af hálfu hæstv. fyrrverandi ráðherra að styrkja stöðu útvarpsins og skapa því ákveðið rekstrarlegt svigrúm en setja því um leið skorður svo ekki gætti aflsmunar í samkeppni við aðra samkeppnisaðila.

Það er athyglisvert í því sambandi að á þeim tíma voru miklar deilur um það rekstrarform. Í þessu frumvarpi er hins vegar ekki gert ráð fyrir að því rekstrarformi verði breytt. Það er út af fyrir sig dálítið athyglisverð niðurstaða eftir allt sem á undan gekk.

Ég vil segja að ég tel að ekki gangi að taka Ríkisútvarpið algerlega út af auglýsingamarkaði, ekki algerlega. Það mundi þýða í fyrsta lagi að gera yrði grundvallarbreytingar á fjármögnuninni og í öðru lagi væri það ekki sanngjarnt gagnvart t.d. þeim sem hafa ekki aðgang eða takmarkaðan aðgang að öðrum útvarpsrásum að kippa Ríkisútvarpinu algerlega út af auglýsingamarkaði. Ég er að því leyti íhaldssamur eins og að mörgu öðru leyti, líkt og alkunna er.

Varðandi stöðu landsbyggðarinnar er Ríkisútvarpinu ætlað heilmikið hlutverk í því sambandi. Nú mun auðvitað reyna áfram á hvernig Ríkisútvarpið sinnir því. Mér finnst Ríkisútvarpinu að mörgu leyti hafa tekist vel í þeim efnum en að sumu leyti hafa þeir verið, og ekkert að sumu leyti því að það er ljóst mál, að draga úr þeirri þjónustu við landsbyggðina. Það er að mínu mati mjög vont. Mér fannst dálítið hlálegt þegar Ríkisútvarpið rak umræddan fréttamann á Suðurlandi og samkeppnisaðilinn réð hann daginn eftir og sýndi fram á að þarna voru allar markaðslegar forsendur. (Forseti hringir.) Það hins vegar sýnir kannski svart á hvítu mikilvægi þess að það séu fleiri útvarpsstöðvar en Ríkisútvarpið.