141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar þó að endurtaka fyrri spurninguna um hvort ég og hv. þingmaður deilum þeim skoðunum að mikilvægt sé að Ríkisútvarpið geti áfram verið á auglýsingamarkaði. Mig langar að spyrja aftur hvort það sé stefna hv. þingmanns eða stefna Sjálfstæðisflokksins í heild sinni að Ríkisútvarpið eigi að geta verið á auglýsingamarkaði og ekki eigi að loka algerlega fyrir það.

Varðandi landsbyggðarmálin segir hv. þingmaður að með þessum breytingum og fleiri reyni á hver staða landsbyggðarinnar verður í þeirri umfjöllun. Telur hv. þingmaður að ganga þurfi lengra en er gert í þessari löggjöf, hugsanlega með því að setja inn einhver ákvæði um að starfsstöðvar eigi að vera úti á landi eða starfandi fréttamenn á ákveðnum svæðum? Þurfum við að ganga lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir til að tryggja það eða telur hv. þingmaður að nægilegt sé gert í því frumvarpi sem liggur fyrir og við erum með til umræðu?