141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem ég sagði um auglýsingarnar og hvort það sé stefna mín eða Sjálfstæðisflokksins vil ég segja strax að það eru alveg örugglega skiptar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins um hversu langt eigi að ganga í þeim efnum. Ég veit um marga góða flokksfélaga mína sem telja að ýta eigi Ríkisútvarpinu alveg út af auglýsingamarkaðnum. Ég er ekki þeirrar skoðunar og stefna flokks míns hefur auðvitað meðal annars birst í þeirri forgöngu sem menntamálaráðherra okkar og ríkisstjórn okkar hafði um þær breytingar sem voru gerðar á skipulagi Ríkisútvarpsins. Þar var gert ráð fyrir því að þeir hefðu möguleika á að vera á auglýsingamarkaði en það verður auðvitað mjög að gæta þess að þeir njóti ekki aflsmunar. Þar hljóta til dæmis eftirlitsstofnanir okkar eins og Samkeppniseftirlitið o.fl. að koma til skjalanna.

Varðandi landsbyggðin er ég ekkert endilega viss um að við eigum að setja áskilnað í lögin um að starfsstöðvar skuli vera á tilteknum stöðum. Ég held að það séu ýmsar aðrar leiðir. Til dæmis eru starfrækt öflug héraðsfréttablöð, ýmis slík þjónusta úti á landsbyggðinni, og mér finnst koma til greina að Ríkisútvarpið semji við þá aðila um einhverja fréttaöflun sem þeir selja síðan Ríkisútvarpinu. Það þarf ekki endilega að vera þannig að Ríkisútvarpið sjálft reki fréttastöðvar á landsbyggðinni. Það geta líka verið einstaklingar og fyrirtæki sem sinna því hlutverki.