141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggur breytingartillaga frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um svokallaðan frjálsan útsendingartíma eða gjaldfrjálsan útsendingartíma og byggir sú tillaga m.a. á skýrslu sem unnin var af nefnd sem skilaði af sér í febrúar, 27. febrúar var skýrslan dagsett. Það er sem sagt skýrsla nefndar á vegum mennta- og menningarmálaráðherra um aðgang stjórnarhreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga. Þetta er langt og ítarlegt nafn á skýrslunni og heiti nefndarinnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað honum finnst um tillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um að framboð sem bjóða munu fram í næstu kosningum hafi aðgang að Ríkisútvarpinu til að koma skilaboðum sínum á framfæri, þ.e. að það verði jafnræði á milli allra framboða. Ég hygg að það sé hluti af því sem er kannski eðlileg krafa í dag, að gætt sé jafnræðis meðal framboða. Ljóst er að framboð eru misvel í stakk búin til að kaupa sér aðgang að fjölmiðlum og að sjálfsögðu þarf í samræmi við meginstefnu og hlutverk Ríkisútvarpsins að gæta jafnræðis og slíks. Ég velti fyrir mér hvernig þingmaðurinn tekur í tillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur.

Málið á sér töluvert langan aðdraganda. Það byggir m.a. á athugasemdum sem komu frá ÖSE í kjölfar kosningaeftirlits og eru dæmi um svipaðar ráðstafanir í öðrum löndum. En mér fyndist áhugavert að skoðun þingmannsins á því sem heitir enskri tungu „free airtime“.