141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt er kjarni málsins. Við erum með Ríkisútvarp sem hefur ákveðnar skyldur sem við setjum í lög ef þetta mál verður lögfest og það er snúið að sinna landinu öllu. Ég held að ég sé ekki að ýkja þegar ég segi að landsbyggðarfólk upplifi það að minnsta kosti þannig að sú þjónusta sé lakari núna en hún var. Það byggir m.a. á því að þar voru svæðisstöðvar. Nú er því sinnt með öðrum hætti.

Ég hef hins vegar ekki viljað festa mig í því að segja að svæðisstöðvar séu það eina sem komi til greina. Ég velti því fyrir mér hvort hægt væri að semja við fréttastofur sem þegar eru starfandi hjá héraðsfréttamiðlum sem gætu t.d. tekið að sér verkefni ásamt ýmsum dugmiklu fréttamönnum sem eru mjög duglegir við þetta, án þess að ég ætli að nefna nein nöfn. Mér finnst það vera nokkuð sem við gætum íhugað hvort hægt sé að sinna almannahlutverki Ríkisútvarpsins með öðrum hætti en áður hefur verið gert, m.a. vegna þess að ný tækni er komin til skjalanna sem gerir vinnuna örugglega auðveldari en áður var.