141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Hann kom inn á það áðan hvort Ríkisútvarpið ætti til að mynda að reka Rás 2 og ég velti því fyrir mér hvað hann telji vera verkefni Ríkisútvarpsins. Það er kannski ágætt að taka það fram að ég tel að við eigum að hafa öflugt Ríkisútvarp og ég er ekki einn þeirra sem tala fyrir því að hætta eigi rekstri Ríkisútvarpsins eða eitthvað því um líkt. Ég held að það þjóni mjög mikilvægum tilgangi sem hlutlaus fjölmiðill og það er okkar að tryggja að þetta sé hlutlaus fjölmiðill sem sinnir ýmsum þáttum sem aðrir fjölmiðlar sinna ekki.

Mig langar að biðja hv. þingmann að velta því fyrir sér hvað hann telji að eigi að vera grundvallarverkefni Ríkisútvarpsins. Hverju á Ríkisútvarpið nákvæmlega að sinna? Maður hefur heyrt það líka á Sjálfstæðisflokknum og þá kannski fremur þeim sjálfstæðismönnum sem yngri eru og á aldur við þann sem hér stendur. Ungir sjálfstæðismenn, sumir hverjir, hafa talað fyrir því að það eigi bara að selja Ríkisútvarpið og hætta rekstri þess. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Eigum við að hætta rekstri Ríkisútvarpsins? Hvar eigum við að draga mörkin? Hv. þingmaður nefnir Rás 2, að bjóða út ákveðna auglýsingapakka og talar um sterka stöðu Ríkisútvarpsins. Hvar eigum við að draga mörkin? Hver eru þau lágmarksskilyrði sem Ríkisútvarpið þarf að fylla í huga hv. þingmanns? Væri takmarkið kannski það, ef Sjálfstæðisflokkurinn fengi einn að ráða, að Ríkisútvarpið yrði hugsanlega bara selt eða þurfum við kannski engan ríkisfjölmiðil? Það væri fróðlegt að fá skoðun hv. þingmanns og Sjálfstæðisflokksins á þessu.