141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar auglýsingaþáttinn þá vísa ég til þeirra ummæla sem hafa fallið bæði hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og eins hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Ég vil þó segja að ég er frekar á þeirri línunni að það eigi að takmarka hann.

Menn verða þó líka að horfa á þetta út frá sjónarhóli þeirra sem eru að auglýsa. Það gæti verið nokkuð mikil afmörkun og takmörkun ef í raun og veru væri bara ein sjónvarpsstöð, eins og núna er, á almenna markaðnum sem hægt væri að auglýsa hjá með sjónvarpsauglýsingum. Það er auðvitað eitthvað sem menn verða að hugsa og ganga gætilega með.

En hvað varðar Ríkisútvarpið í núverandi mynd þá er það það sem ég geri athugasemdir við. Ég held að sú hugsun sem birtist í frumvarpinu verði mjög fljótt þannig að hún verði vart framkvæmanleg. Ég er sammála hv. þingmanni þegar hann bendir á að enn þá eru svæði á landinu sem við þurfum að huga að hvað varðar aðgengi að þessari tegund af fjölmiðlun. Menn geta því ekki gert einhverjar kollsteypur á rekstri Ríkisútvarpsins, en hvort sem um er að ræða aðgengi að íþróttaviðburðum eða skemmtiefni eða hvað það nú er þá mun það breytast mjög hratt. Kostnaður við að dreifa hefur farið niður úr öllu valdi og mun halda áfram að verða ódýrari.

Aðgengi verður meira og meira og það mun færast í vöxt að smekkur manna verði þannig að menn segja: Ég hef engan tíma fyrir neitt annað en það sem ég sjálfur eða sjálf hef áhuga á og ég læt engan stilla upp sjónvarpsdagskrá fyrir mig. Þess vegna tel ég að í staðinn fyrir að við eyðum ríkispeningum í að kaupa ameríska sjónvarpsþætti eins og Desperate Housewives og hvað þetta heitir allt saman, nota peninga skattborgaranna í það, þá eigum við að nota þá í að búa til efni um lífið hér í landinu, leikið efni eða hvað það nú er, menningu og sögu þjóðarinnar. Ég held að það sé hið mikilvæga og þar sé hægt að segja að þessi stofnun hafi hlutverk, (Forseti hringir.) en ekki að halda úti, löngu eftir að tæknibreytingar gera það ómögulegt, sjónvarpsstöð með þeirri hugsun sem birtist í frumvarpinu.