141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu þar sem hann dró fram ýmis atriði, meðal annars segist hann vera ósammála okkur sjálfstæðismönnum um ýmislegt í umræðunni og vert er að draga það aðeins fram.

Hv. þingmaður talaði um mikilvægi fjölmiðilsins og ég tel og heyrðist á ræðu hans að hann telji eðlilegt að Ríkisútvarpið hafi veigameira hlutverki að gegna heldur en ég sjálf tel.

Mín spurning er í rauninni tvíþætt. Í 3. tölulið 3. gr., á bls. 2, segir að fjölmiðlaefnið skuli hið minnsta vera fréttir, fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni. Telur hv. þingmaður að það sé einhver afmörkun eða er hægt að skilja þessa skilgreiningu fjölmiðlaefnisins þannig að hún þrengi það sem RÚV getur gert? Þýðir hún ekki einfaldlega að RÚV getur gert hvað sem er? Er einhver þrenging á því þarna?

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji nauðsynlegt að ríkið reki tvær útvarpsstöðvar eða hvort hann telji rétt að Ríkisútvarpið selji eða loki Rás 2.