141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar og þetta andsvar. Tillagan sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir leggur fram byggir meðal annars á skýrslu sem ber mjög langt nafn. Hún heitir, með leyfi forseta, Skýrsla nefndar á vegum mennta- og menningarmálaráðherra um aðgang stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga. Þessi tillaga er meðal annars til að bregðast við, eða þannig lít ég á, athugasemdum frá ÖSE þar sem talað er um ókeypis útsendingartíma. Mér varð reyndar á fyrr í kvöld að tala ensku og fékk skammir fyrir það, ég ætla ekki að gera það núna en þetta mundi þýða einhvers konar ókeypis birtingartími í sjónvarpi eða ljósvakamiðlum.

Mörg ríki hafa brugðist við þessu með mismunandi hætti og ég held að það sé bara eðlilegt, í því lýðræðissamfélagi sem við teljum okkur búa við hér á Íslandi, að við fetum okkur í þá átt sem ÖSE leggur til, eins og ég hef skilið þetta, með því að bjóða upp á þetta. Talað er um gild framboð þannig að þau þurfa að uppfylla þær kröfur sem eru lagðar til framboða og þegar þau hafa gert það þá fái allir þennan jafna tíma. Ef ég skil þetta rétt kemur það ekki í veg fyrir að stjórnmálaflokkar kaupi umfram tíma og auglýsi sig og svo framvegis. Ég fæ ekki skilið að það banni það. Já, ég styð því tillöguna.