141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var reyndar tvennt eða þrennt sem ég hefði haft áhuga á að ræða við hv. þm. Birgi Ármannsson þar sem hann kom inn á samspil 4. gr. og 16. gr., mat á nýrri fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu. Mig langar að spyrja hv. þingmann — kannski meðal annars í ljósi þess að við framsóknarmenn höfum ólíkari sýn en sjálfstæðismenn á Ríkisútvarpið, hefur mér heyrst í umræðunni og hefur svo sem komið fram áður — hvað það er sem hv. þingmaður óttast að verið sé að heimila Ríkisútvarpinu að gera með þeim lagagreinum. Hvað er það sem þingmaðurinn óttast að Ríkisútvarpið geti farið inn á svið þar sem að hans mati einkamiðlar geti betur staðið fyrir þeirri starfsemi?

Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef ekki heldur fengið mjög skýr svör frá stjórnarmeirihlutanum varðandi þessa þætti. En ég hefði áhuga á að heyra þau sjónarmið sem hv. þingmaður hefur uppi um af hverju hann óttast það að verið sé að gefa Ríkisútvarpinu einhverjar heimildir til að ganga fullbratt um gleðinnar dyr á kostnað samkeppni í landinu á fjölmiðlasviðinu.