141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta var góð spurning hjá hv. þingmanni og mjög þarft að ræða þessi mál. Auðvitað er mikilvægt að það sé fjölbreytni á markaðnum en ég hef trú á því að einkaaðilar sem hafa mikinn metnað til að flytja gott efni og flytja til dæmis góðar fréttir eins og sumar útvarpsstöðvar leggja mikinn metnað í og sjónvarpsstöðvar auðvitað — það er besta leiðin til að fara. Mín skoðun er hins vegar sú að hluti af hlutverki Ríkisútvarps í almannaþágu sé að segja fréttir. En ég er ekkert endilega á þeirri skoðun að ríkið eigi í þeirri stofnun sem RÚV er og sýnir vinsælustu sjónvarpsþætti sem um getur á markaði. Ég er ekki á því að einkaaðilar eigi að lúta í lægra haldi vegna yfirburðastöðu RÚV gagnvart risastórum sjónvarpsviðburðum.

Mér finnst það lykilatriði eins og ég sagði í ræðu minni að við reynum að afmarka betur hvert þetta hlutverk er. Þegar við erum búin að því áttum við okkur miklu betur á því hvert peningarnir okkar fara og hversu mikið við þurfum að leggja inn í stofnunina. En eins og staðan er í dag og hún verður eftir að þetta frumvarp fer í gegnum þingið, sem mér sýnist allt stefna í, erum við enn þá algjörlega eins og spurningarmerki í framan hvað varðar hlutverk RÚV.

Ég skil ekki hvernig hægt er að ráðast í svona viðamiklar breytingar eða reyna að ráðast í allsherjarendurskoðun á lögunum um RÚV án þess að svara þessum spurningum um hlutverk þess betur. En það er kannski einfaldlega vegna þess að ég er á allt öðrum pólitískum skoðanavettvangi en þeir sem stjórna í þessu ráðuneyti.