141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég fái nú að leiðrétta sjálfa mig aðeins þá er það Evrópuráðið sem ég átti við og ástæðan fyrir þeim tilmælum að stuðla eigi að fjölbreytni í fjölmiðlum byggist reyndar á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu eins og hann hefur verið túlkaður af Mannréttindadómstól Evrópu.

Með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til er verið að marka skýrar tekjustofna RÚV, eins og það er orðað í greinargerðinni og nefndarálitinu. En ég hef haft verulegar áhyggjur af stöðu fjölmiðlamanna, blaðamanna og einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Ég hef líka haft áhyggjur af því hversu mikið við höfum þurft að skera niður hjá RÚV. Staðan hefur náttúrlega verið þannig eftir hrun að menn hafa þurft að forgangsraða þeim fjármunum sem hafa komið í ríkissjóð, en það sem ég velti fyrir mér er þetta: Ef markmið okkar er að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlum eigum við þá ekki að skoða hvernig við getum nýtt fjármuni okkar sem best til þess? Er best að setja þetta aukafjármagn, nokkur hundruð milljónir, í þessi verkefni, eða gætum við frekar náð markmiðum okkar til dæmis með því að setja þá í annað? Ég veit að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið tiltölulega hrifinn af samkeppnissjóðum eins og í menntamálum og það má velta fyrir sér hvort við gætum sett þessa fjármuni í einhvers konar rannsóknarsjóð sem sjálfstætt starfandi blaðamenn eða hjá einstökum fjölmiðlum gætu sótt um til þess að geta tekið fyrir ákveðin málefni eða hluti sem varða samfélagið. Það þarf ekki endilega allt að vera fréttir, þetta gætu verið heimildarmyndir eða eitthvað sem blaðamenn telja að skipti máli til að tryggja upplýsingagildið, fjölbreytnina og sýna mannlífið eins og það er í íslensku samfélagi. Það er ein hugmynd.

Önnur hugmynd sem maður hefur velt fyrir sér er hvernig við getum bætt stöðu staðbundinna fjölmiðla því að hún hefur líka verið mjög veikburða. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti verulega miklu, sérstaklega þegar við erum með svona veikburða fjölmiðlamarkað almennt, að við séum með sterkt RÚV. En erum við þá að nýta peningana rétt? Gætum við til dæmis tekið þessar nokkur hundruð milljónir og sett þær í annað, einmitt til þess að styðja jafnt við fjölmiðla?