141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:56]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttir fyrir ágætisspurningu. Ég er ekki alveg viss um að ég sé sammála samlíkingu hennar á fjármálamarkaði annars vegar og fjölmiðlamarkaði hins vegar.

Eins og ég sagði í ræðu minni tel ég að framtíðarfjölmiðlar í heiminum, eins og sjónvarpsstöðvar, muni einfaldlega samanstanda af sjónvarpsstöðvum sem flytja fréttatengt efni allan sólarhringinn, sjónvarpsstöðvum sem eru nokkurs konar útvarpsstöðvar með mynd, eins og við erum farin að sjá hér á landi, og síðan sjónvarpsstöðvum sem útvarpa frá íþróttakappleikjum.

Ég nefndi það sérstaklega í ræðu minni að ég teldi mjög gott að vera með eina útvarpsstöð sem ríkið mundi reka til þess að passa upp á það menningarhlutverk sem Ríkisútvarpið sinnir núna á Rás 1. Hvort ríkið sé best til þess fallið að tryggja óvilhalla umfjöllun er ég ekki alveg viss um. Ef við skoðum t.d. fréttaskýringaþætti, umræðuþætti og annað slíkt hjá Ríkisútvarpinu, eða ríkissjónvarpinu, í dag er með engu móti hægt að segja að það sé verið að tryggja fjölbreytni í skoðunum eða hugmyndafræði. Mér finnst umfjöllunin vera frekar einsleit og litast mjög af pólitískum skoðunum þeirra sem þar eru. Ég er því ekki sammála þingmanninum um að það sé tryggt í dag, en kannski var spurningin frekar hvort hægt væri að tryggja það.