141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:01]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við tökum nákvæmlega dæmið sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi, Fox News, fellst ég algjörlega á það og er sammála því að fréttaflutningur og málflutningur á þeirri stöð er mjög einhliða. Við höfum líka stöðvar á Íslandi þar sem er svona einhliða málflutningur, en við verðum að gefa fólki að það sé skynsamt, enda þegar við sjáum stöðvar eins og Fox News þá er það algjörlega á hreinu að fólk veit hverju það má búast við og hefur varann á sér með það.

Hvort hægt sé að tryggja algjörlega óvilhallan fréttaflutning skal ég ekki segja til um, en ég held að fjölmiðill sem vill ná til breiðs hóps fólks til þess að geta selt auglýsingar og annað slíkt hljóti alltaf að reyna að gæta einhvers konar óhlutdrægni vegna þess að annars þrengist hópurinn alltaf niður í vissa þjóðfélagshópa og vissa hugmyndafræðilega hópa, þar af leiðandi verður ekki jafnmikið áhorf eða hlustun.

Ég hef ekkert gríðarlega miklar áhyggjur af þessu. Við sjáum t.d. fréttastofu Stöðvar 2, ef við tölum sérstaklega um sjónvarpsfréttir, að það er ekkert minna eða meira kvartað yfir henni en fréttastofu RÚV. Ég held að fréttaflutningur þar sé mjög sambærilegur að gæðum, svona meira og minna.

Ég (Forseti hringir.) er ekkert sérstaklega upptekinn af því að það eigi algjörlega að vera á könnu ríkisins að (Forseti hringir.) tryggja þetta. Ég hef meiri áhyggjur af menningarhlutverkinu.