141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að eins og kom fram í andsvari mínu við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson þá hef ég að mörgu leyti verið sammála þeim áherslum sem hæstv. menntamálaráðherra hefur verið með varðandi löggjöf á fjölmiðlamarkaði. Ég sat sjálf í menntamálanefnd þegar unnið var að nýjum fjölmiðlalögum og studdi þær breytingar sem komu þar fram og hef átt mjög gott samstarf við framsögumann þessa máls, Skúla Helgason, varðandi breytingar á lagaumhverfi fjölmiðlanna.

Nákvæmlega eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór í gegnum þá er ofboðslega mikil gerjun, mjög margt er að gerast í heiminum hvað varðar tækniþróun og hvernig við nálgumst bæði fjölmiðla og efni, hvort það eru kvikmyndir, sjónvarpsþættir eða jafnvel útvarp og annað efni er sent út í fjölmiðlum. Hvort sem við tölum um sjónvarp, útvarp eða dagblöð þá hafa þau að svo miklu leyti verið að færast yfir á þessa nýju dreifimiðla, sem eru til dæmis netið. Þetta gerir það að verkum að erfitt er að átta sig á því nákvæmlega hvernig umhverfið verður í framtíðinni.

Eitt af erfiðustu verkefnunum sem varðaði skilgreiningu þegar við vorum að vinna fjölmiðlalögin var til dæmis hvenær vefsíða eða blogg er orðið fjölmiðill og hvenær einstaklingur sem er að tjá skoðanir sínar. Þetta var það sem við vorum að reyna að ná utan um. Þar var líka verið að reyna almennt að ná utan um það hvernig hægt er að tryggja miðlun í gegnum þessa nýju tækni. Núna þegar við erum að tala um RÚV sem fjölmiðil í almannaþágu þá er þetta eitt af því sem við verðum að velta fyrir okkur. Eins og kom fram í andsvörum mínum áðan þá vil ég fyrst og fremst nálgast málið á þeim grunni að ég tel gífurlega mikilvægt fyrir lýðræðislegt samfélag, fyrir samfélag sem vill taka ákvarðanir á upplýstan máta, að við séum með sterka fjölmiðla. Eins sterka og við getum verið með í þessu smáa samfélagi okkar með þetta fáa einstaklinga. Ég held að vinnan sem var unnin á vegum fjölmiðlanefndar 2004 hafi verið mjög góð. Þar var lagt upp hvernig hægt væri að tryggja þá pólitísku og menningarlegu fjölbreytni sem mannréttindasáttmáli Evrópu og Mannréttindadómstóllinn hafa verið að gera kröfu á sín aðildarríki um.

Við sem lýðræðislegt samfélag viljum standa okkur hvað þetta varðar. Talað er um mikilvægi þess að hafa fjölmiðil í almannaþágu sem er nákvæmlega það sem frumvarpið gengur út á. Nákvæmlega eins og við flest höfum viljað nálgast Ríkisútvarpið. Líka er talað um að hægt sé að nota samkeppnislögin til þess að tryggja þessa fjölbreytni, þannig að það geta þurft að vera sérákvæði í samkeppnislögum sem varða samþjöppun eða breytingar á eignarhaldi á fjölmiðlum. Einnig er talsvert talað um mikilvægi þess hvernig leyfi eru veitt, það getur skipt máli. Þótt ekki sé verið að veita leyfi fyrir stofnun dagblaðs eða opnunar vefsíðu þá þurfum við að halda utan um og tryggja að menn hafi í heiðri þær lýðræðislegu leikreglur sem er verið að setja með fjölmiðlalögunum og þeir sinni skyldum sínum gagnvart samfélaginu.

Eitt af því sem talað var um var að vera með sérstakar reglur varðandi eignarhald fjölmiðla og útbreiðslu. Það tel ég að hæstv. menntamálaráðherra hafi verið að reyna að gera á þessu kjörtímabili og fyrrverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hafi líka verið að reyna að nálgast. Það hefur endurspeglast í því að tiltölulega mikil sátt hefur verið innan menntamálanefndar varðandi þessar áherslur, eða þeirrar nefndar sem fer með menntamálin eða fjölmiðlana sem núna er allsherjar- og menntamálanefnd. Við þurfum að nálgast þetta út frá því að við viljum tryggja pólitíska og menningarlega fjölbreytni í fjölmiðlum á Íslandi en menn þurfa líka að horfa á þá fákeppni sem við erum með hér, þennan litla markað. Menn hafa bent á að ef til dæmis RÚV færi út af auglýsingamarkaði þá gæti það raunar þýtt minni samkeppni, það hefði áhrif á aðrar atvinnugreinar. Ekki inni á fjölmiðlamarkaðnum sjálfum heldur mundi það þýða, og það kom fram í vinnu nefndarinnar varðandi fjölmiðlalögin, að þá mundi verð á auglýsingum væntanlega hækka, sem mundi hafa slæm áhrif á aðrar atvinnugreinar.

Þó að ég leggi áherslu á að við séum með öflugt RÚV þá vil ég líka hafa aðra fjölmiðla sterka og það er það sem við náum ekki að svara hvernig við eigum að gera. Hér er verið að taka ákvörðun um að marka og tryggja betur þá tekjustofna sem RÚV hefur. Ef það eru alltaf þessi sjónarmið um að tryggja pólitíska og menningarlega fjölbreytni þegar við bætum aðeins í þá vitum við það alveg að það eru svo mörg verkefni sem við þingmenn mundum gjarnan vilja eyða meiri peningum í. Ef við erum að ráðstafa auknum fjármunum þá verðum við náttúrlega að spyrja okkur: Er þessi ráðstöfun sú besta í núverandi ástandi? Nefndin telur svo vera, en það sem ég hef saknað, og gerði líka í vinnunni varðandi fjölmiðlalögin, er að ég sé ekki tillögur um hvernig sé hægt að bæta stöðu annarra fjölmiðla.

Samhliða því að við viljum hafa sterkt RÚV þá vantar hinar tillögurnar. Ég hef nefnt nokkrar hugmyndir hvað það varðar og hef saknað þess í umræðunni. Menn hafa gagnrýnt ráðstöfunina en menn hafa ekki sagt hvað þeir ætla að gera til þess að tryggja öflugri fjölmiðlamarkað og bæta stöðu þeirra sem eru starfandi í þessari atvinnugrein. Ein hugmynd sem hv. þm. Skúli Helgason hefur nefnt er að settur yrði á stofn sérstakur sjóður, samkeppnissjóður, fyrir fjölmiðlamenn sem þeir gætu sótt í til þess að sinna rannsóknarverkefnum og vinna ákveðna heimildarvinnu til þess að sinna því hlutverki sem er nefnt, að láta borgurunum í té upplýsingar og vandaða greiningu á samfélaginu. Þeir geta sótt um í þann sjóð til þess að raunverulega hafa efnið sem getur verið vettvangur fyrir fjölbreytta þjóðfélagsumræðu, til þess að tryggja að fjölmiðlamenn séu að veita stjórnvöldum og öðrum raunverulegt aðhald.

Í mjög áhugaverðri ritgerð sem ég rakst á var fjallað um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og verið að skoða hlutverk fjölmiðla. Í henni kom fram að fjölmiðlar brugðust. Ekki vísvitandi heldur voru þeir einfaldlega ekki í stöðu, voru of veikburða, til þess að geta tekist á við þær miklu breytingar sem urðu á fjármálageiranum. Þeir höfðu hreinlega ekki þekkinguna eða mannaflann til þess að greina það sem var að gerast og koma upplýsingum á framfæri til almennings og okkar stjórnmálamannanna. Á þessu kjörtímabili hef ég oft fyrst fengið upplýsingar um eitthvað sem er að gerast í gegnum fjölmiðla frekar en endilega hér á Alþingi. Þetta er ein hugmynd. Við höfum ekki séð neina tillögu þess efnis og ég hef saknað þess í umræðunni hér.

Síðan er önnur hugmynd sem ég hef sjálf nefnt. Eins og ég er sátt við ráðstöfunartryggingagjaldið þá er ég jafnósátt við að við séum að skattleggja störf á þennan máta. Eitt af því sem maður hefur velt fyrir sér er, af því að mjög stór hluti af kostnaði við rekstur á fjölmiðli er launakostnaður, hvort að þegar menn væru að koma með nýjan fjölmiðil eða fjölmiðil sem væri undir ákveðinni stærð þá ættu þeir að geta fengið niðurfellt tryggingagjaldið. Þannig sé það ekki bara stóriðja á Bakka sem fær niðurfellt tryggingagjaldið, virðulegi forseti.

Síðan er önnur tillaga sem við þingmenn Framsóknarflokksins höfum flutt þó nokkuð oft og það varðar sérstakan stuðning við staðbundna fjölmiðla. Þeir skipta verulegu máli og við gleymum þeim mjög oft, en oft er lestur á staðbundnum fjölmiðlum og blöðum jafnvel meiri en á landsdagblöðunum. Oft er besta leiðin, hvort sem við erum að tala um hér á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi, ef maður ætlar virkilega að koma einhverju á framfæri, láta vita af einhverju sem er að gerast, þá er best að gera það í gegnum staðbundna fjölmiðla. Bent hefur verið á það fyrirkomulag sem er til dæmis til staðar í Noregi varðandi stuðning við staðbundna fjölmiðla. Þetta er það sem ég sakna virkilega og ég ætla að fá að halda því fram að til staðar sé vilji hjá hæstv. menntamálaráðherra og líka hjá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um að gera eitthvað í þessu. Kannski er bara þægilegra fyrir okkur að fókusera fyrst og fremst á þetta, tryggja þetta, gera svo hitt seinna og sjá bara til. Ég er bara að segja að við þurfum virkilega að huga að þessu.

Þessar ábendingar mínar mega á engan máta vera teknar svo að ég telji að skera eigi niður hlutverk RÚV. Við þurfum að efla hinn þáttinn líka og besta sönnunin fyrir því að mínu mati er nýleg grein sem Magnús Halldórsson skrifaði um einn, að vísu óbeinan eins og hann kallar, eiganda að 365. Það er eitthvað sem hefur valdið mér verulegum áhyggjum. Hér er að koma upp á yfirborðið nákvæmlega það sem við þingmenn höfum haft áhyggjur af, að ekki séu nægilega miklir eldveggir á milli eigenda og ritstjórnar, að menn átti sig ekki á því hvar mörkin liggja þegar menn eru eigendur að fjölmiðli og hvað þeir geta leyft sér. Það hefur svo sem oft verið sagt líka um okkur stjórnmálamennina, að við höfum heldur ekki gert okkur nægilega grein fyrir þessum mörkum. Maður hefði haldið að ef eigandi er ósáttur við umfjöllun um sig þá gæti hann bara opnað sitt eigið blogg og tjáð sig um það þar. Þá liggur fyrir að þarna er verið að gagnrýna hlutina en ekki þannig að síminn sé tekinn upp eða reynt að nota allar leiðir til þess að pressa fjölmiðlamennina. Það sama gildir um okkur stjórnmálamennina. Eitt af mínum prinsippum varðandi fjölmiðla er að þegar ég heyri alla stjórnmálaflokka kvarta undan umfjöllun hjá einhverjum fjölmiðli þá er viðkomandi fjölmiðill að mínu mati að vinna vinnuna sína. Ég fer fyrst að hafa áhyggjur þegar fjölmiðill er orðinn alveg ofboðslega ánægður með einhvern ákveðinn stjórnmálaflokk eða ákveðin öfl í samfélaginu, umfram aðra. Þannig að það er það sem við þurfum að tryggja.

Virðulegi forseti. Þetta eru mínar helstu áherslur hvað þetta mál varðar. Ég get ekki tekið undir það sem kom fram í andsvari hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur við andsvari mínu, þar sem var talað um að markmiðið hlyti alltaf að vera að draga úr umsvifum hins opinbera. Þau stjórnvöld sem eru nú við völd hafa staðið sig að mörgu leyti miklu betur en ýmsir aðrir í því að draga úr umsvifum hins opinbera, en það er sumt sem skiptir svo miklu máli til þess að tryggja að lýðræðið virki að þar getum við ekki dregið úr umsvifum hins opinbera. Við getum þó um leið eflt umsvif einkaaðila, samhliða.