141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. fyrir ræðuna. Það kom fram í máli hv. þingmanns að vilji hennar eins og svo margra annarra hv. þingmanna væri að hafa öflugan fjölmiðil í almannaþágu. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þingmanns að við erum með mjög lítinn og þar af leiðandi viðkvæman markað. Við verðum auðvitað að átta okkur á því að Ríkisútvarpið er með um 4 milljarða forskot á aðra fjölmiðla. Hv. þingmaður nefndi það í ræðu sinni að henni fyndist vanta ákveðnar tillögur. Það sem mér fannst líka athyglisvert í máli hv. þingmanns var að ein tillagan sem var nefnd væri að stofna svokallaðan samkeppnissjóð til þess að gefa þeim sem vinna hjá fjölmiðlum eða fjölmiðlamönnum kost á því að sækja um hjá sjóðnum til að greina ákveðin mál sem mikilvægt væri að kæmu fram. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir hinu mikilvæga aðhaldshlutverki fjölmiðla í landinu.

Hv. þingmaður nefndi líka það sem gerðist í kringum bankahrunið, að fjölmiðlarnir hefðu ekki staðið sig og það hefði komið fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, og því vil ég spyrja hana hvort það hefði ekki verið staðfesting á því, af því að hv. þingmaður nefndi það í ræðu sinni, að sumt hefði hún heyrt í fyrsta sinn í gegnum fjölmiðla. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún geti verið sammála mér um það að þegar við vorum að fjalla um breytingar á tollalögunum hér í haust út af lækningatækjunum margfrægu þar sem öllu var ruglað saman, alveg sama hverju, líka þeim hlutum sem áttu ekki að vera þar inni, þá varð kúvending akkúrat þegar fjölmiðlar fóru að upplýsa málið og það var dregið til baka. Getur hv. þingmaður verið mér sammála um það?