141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er mjög athyglisvert sem kom fram í andsvari hjá hv. þingmanni þegar hún ítrekaði það sem hún sagði í ræðu sinni. Auðvitað kristallast þetta í því starfsumhverfi sem fjölmiðlarnir starfa í. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að umhverfið sem þeir starfa í er viðkvæmt, sérstaklega einkamiðlarnir. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir um mikilvægi þess að finna hvernig hægt sé að styðja við starfsemina.

Hv. þingmaður kom líka inn á í ræðu sinni útgjaldaaukninguna sem tengist þessu frumvarpi. Ég hef gert kostnaðinn að umtalsefni í tveimur ræðum mínum um þetta mál og fjallað um forgangsröðun á því í hvað við viljum veita peninga.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í umsögn sem kom til allsherjar- og menntamálanefndar frá hv. fjárlaganefnd þar sem fjárlaganefnd sá enga ástæðu til þess að breyta því kerfi sem ríkisfjölmiðillinn RÚV er í, þ.e. að vera bara með fjárlaganúmer. Nú er lagt til að gjaldið renni allt til RÚV, þ.e. hinn svokallaði nefskattur. Því til staðfestingar voru gerðar breytingar frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram uns fjárlögin voru samþykkt sem kostuðu um 260 millj. kr. Ef við ætlum að þróa okkur út í að vinna með svokölluð rammafjárlög, þ.e. taka ákvarðanir eitthvað fram í tímann, sem er auðvitað nauðsynlegt og mjög skynsamlegt, þ.e. að menn sjái þrjú til fimm ár fram í tímann og séu þá með starfsumhverfið með þeim hætti, vil ég spyrja hv. þingmann hver skoðun hennar er á þeirri þörf að breyta í raun og veru núverandi fyrirkomulagi sem ég sé ekki að tryggi sjálfstæði RÚV gagnvart pólitískum áhrifum. Það er mín skoðun en mig langar að leita viðbragða hjá hv. þingmanni við þessu. (Forseti hringir.)