141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Hér eru ekki bara orðin tóm á pappír. Ég átta mig mjög vel á þeirri ábyrgð sem felst í því að stilla málinu upp með þeim hætti að Ríkisútvarpið fái aukið svigrúm upp á um það bil 200 milljónir nettó með þeim tekjum sem koma inn í gegnum útvarpsgjaldið en á móti renna 400 milljónir frá Ríkisútvarpinu samkvæmt þeim áætlunum sem gerðar hafa verið með þeim aðgerðum að setja þak á auglýsingarnar, taka út kostunina og auglýsingar inni í þáttum með tilteknum vel skilgreindum undanþágum. Við þurfum að taka það mjög alvarlega að fylgja því eftir með nákvæmri rýni á ársreikningum Ríkisútvarpsins að þær áætlanir sem koma upphaflega frá stofnuninni sjálfri standist. Þar á bæ verða menn að átta sig á því að ef þessar áætlanir reynast ekki reistar á traustum grunni hefur það tilteknar afleiðingar. Menn þurfa að átta sig á því að þá mun Alþingi þurfa að taka málið upp á ný og endurskoða þessar takmarkanir því að þær verða auðvitað að bíta ef markmið frumvarpsins um raunverulega fjölbreytni á fjölmiðlamarkaðnum og að allir aðilar á þeim markaði hafi svigrúm til þess að dafna eiga að ná fram að ganga.