141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

502. mál
[21:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það mál sem við erum að tala um, ívilnanir vegna nýfjárfestinga, er í sjálfu sér ágætt. Ég er ekki á málinu frá atvinnuveganefnd og ástæðan er kannski fyrst og fremst að þótt um sé að ræða breytingar var engu að síður sagt að heildarendurskoðun á þessari rammalöggjöf lægi fyrir. Við erum reyndar líka með umfjöllun í þinginu um ívilnanir vegna fjárfestinga á Bakka við Húsavík sem fara út fyrir þá rammalöggjöf og sú rammalöggjöf sem á að taka gildi frá og með næstu áramótum verður væntanlega að einhverju leyti meira í líkingu við þann samning sem þar er, það er alla vega mjög líklegt, en þann sem er hér.

Við framsóknarmenn teljum að þar sem fyrir liggur yfirlýsing um breytta löggjöf um næstu áramót sé áhættan við þá tímabundnu breytingu sem er gerð, þrátt fyrir að þetta séu sannarlega jákvæðar ívilnanir í garð nýfjárfestinga og verið sé að auka afslætti á nokkrum þeirra skatta sem fyrirtækin þurfa að búa við, að fyrirtæki sem eru að fara í slíka samninga núna ákveði að bíða eftir þeirri niðurstöðu. Ég hefði talið betra að menn flýttu heildarendurskoðuninni því þó svo að frumvarpið sé vissulega til ákveðinna bóta eru afleiðingarnar af því að fara þá leið óljósar. Ég vildi því ekki vera á nefndarálitinu þótt málið sem slíkt sé jákvætt.

Hvað varðar hugmyndir eða breytingar sem þarna eru, m.a. þá breytingu að taka út heimild til stofnstyrkja þar sem við höfum ekki við efnahagsaðstæður okkar síðustu ár nýtt þá heimild, þótt breytingin sé í sjálfu sér jákvæð þurfa menn ekki að ræða það við aðila sem hugsanlega vilja fjárfesta hér á landi með nýfjárfestingum, það þarf þá ekki að útskýra fyrir þeim að sá valkostur sé í boði. Ég vil ítreka, frú forseti, að málið er jákvætt en það er umdeilanlegt hvort ekki hefði verið skynsamlegra af hálfu ríkisstjórnarinnar að slíta heildarendurskoðuninni og mikið álitamál hvort slíkur biðleikur verði ekki einfaldlega til þess að fresta því að menn ljúki samningum og bíði frekar eftir heildarendurskoðun rammalöggjafarinnar. Ég býst engu að síður við, þar sem ívilnanirnar eru nokkuð jákvæðar, að við framsóknarmenn munum alla vega styðja að málið klárist og fari í gegnum þingið eins fljótt og auðið er en með þeim fyrirvara að við óttumst svolítið að biðleikurinn sé hálfgerður tafaleikur og geti hugsanlega þvælst fyrir frekar en hitt.