141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

502. mál
[21:56]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eitt má hv. þm. Jón Gunnarsson eiga, hann hefur mikla trú á áliðnaðinum. Það mátti skilja á ræðu hans áðan að hann teldi álið nánast sjálfbæran málm sem skapaði sig sjálfur svona annað slagið og væri það besta sem hægt væri að fá fyrir umhverfið. Ég er ósammála hv. þingmanni, en ég virði skoðun hans. Ég held hann trúi því sem hann var að segja. En hvað um það.

Í ræðu hv. þingmanns áðan fannst mér gæta hálfgerðs trega gagnvart því sem hér er verið að fjalla um, að stuðningur hans við málið sé með hálfum huga, að mér fannst. Hann rifjaði upp og hnýtti reyndar í fyrirtæki sem hætti við framkvæmdir í Norður-Þingeyjarsýslu, Alcoa, og sagði að ef menn hefðu haldið skynsamlega á málum þar hefði öðruvísi farið. Mér finnst ekki við hæfi að þingmaðurinn hnýti í fyrirtæki sem ekki geta varið sig úr ræðustól hvað það varðar.

Ég hef nefnt það áður í ræðum mínum að erlend fjárfesting á Íslandi á undanförnum árum og áratugum hefur verið um eða innan við 1% af landsframleiðslu og nánast eingöngu í einum geira, þ.e. orkugeiranum. Það er undantekning ef erlend fjárfesting er í öðrum geirum. Menn geta spurt sig að því hvers vegna í ósköpunum það er. Af hverju hefur íslenskt atvinnulíf ekki verið þrátt fyrir allt eftirsóknarverðari fjárfestingarkostur en hingað til hefur verið? Í kjölfar einkavæðingar bankanna fjárfestu menn jú í bankakerfinu, það var erlend fjárfesting, síðan í risaframkvæmdum fyrir austan, en ekki í almennu atvinnulífi að öðru leyti. Kann hv. þingmaður einhverja skýringu á þessu? Og hvernig hægt er að bregðast við því og hvernig stendur á því (Forseti hringir.) að íslenskt atvinnulíf hefur ekki verið samkeppnisfært árum og áratugum saman við það sem gerist annars staðar?