141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[22:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni andsvarið. Jú, umræður fóru fram innan nefndarinnar um málin en kannski ekki á jafnvíðum grunni og þingmaðurinn nefnir, þ.e. ekki í því alþjóðlega samhengi sem hann nefnir.

Það var hins vegar mat nefndarmanna að ekki væri tímabært að stíga það skref í því tiltekna verkefni, sú umræða þyrfti að fara fram á stærri vettvangi. Það er rétt að nefna sérstaklega að heildarsamtök sveitarfélaga lögðu það til að mynda ekki til heldur voru það fyrst og fremst smærri sveitarfélög og því var í rauninni valið að fara þessa leið. Eins og kemur raunar fram í nefndarálitinu, og nefndin ræddi það, sjáum við alveg sjónarmið sveitarfélaganna en ákváðum engu að síður að stíga ekki skrefið að þessu sinni.

Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslur er það mitt mat, án þess að sú umræða hafi farið fram innan nefndarinnar, að skref í þá átt að lækka aldur í þjóðaratkvæðagreiðslum eigi að stíga um leið og það verður stigið almennt í íbúakosningum. Hvort það er betra að prófa sig áfram í tilraunaverkefni eða ekki skal látið ósagt.