141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[22:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svörin. Ég vil lýsa því viðhorfi mínu að ég get tekið heils hugar undir það sem kemur fram í nefndarálitinu þar sem er vísað í afstöðu eða umsögn Dalvíkurbyggðar í því efni. Þau benda á að ef íbúakosning á að vera til þess að nýtast sveitarstjórn sem best varðandi stefnumörkun og ákvarðanir í málum er auðvitað mikilvægt að sem flestir íbúar geti tekið þátt í henni og er m.a. vísað til þess að í sumum sveitarfélögum geta verið margir íbúar af erlendu bergi brotnir sem hafa kannski ekki hinn hefðbundna kosningarrétt. Ég hefði viljað hvetja hv. þingnefnd til að skoða sérstaklega hvort ekki er tilefni til að setja inn heimildarákvæði hvað það varðar þannig að það sé hverri sveitarstjórn í sjálfsvald sett í kosningum af þeim toga hvort hún vill miða við lægri kosningaaldur í tilteknum íbúakosningum.

Nú kann að vera íbúakosningar séu um málefni sem ekki gefur ástæðu til að lækka kosningaaldurinn niður fyrir 18 ár, t.d. ef kjósa á um áfengisútsölur eða eitthvað þess háttar í viðkomandi sveitarfélagi. Þá getur maður líka spurt sig af hverju 18 ára íbúar sem ekki mega kaupa áfengi megi kjósa um slíkt. Það geta því verið ýmsar mótsagnir í þeim málum. Ég vil hvetja formann nefndarinnar, hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson, og félaga hans í nefndinni til að velta því fyrir sér hvort ekki væri útlátalaust í því skyni og í því samhengi að bæta heimildarákvæði í lögin þannig að það geti verið ákvörðunaratriði hverrar sveitarstjórnar í tengslum við einstakar kosningar af þeim toga.