141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Mig langar að biðla til annarra þingmanna, allra, úr hvaða flokki sem er, að við komum okkur saman um eitt. Það er ljóst að við náum ekki fyrir morgundaginn eða á morgun að klára þau mörgu mál sem bíða hér eftir umræðu og afgreiðslu. Það eru mörg mál sem mér finnst brýnt að ræða vel og fara ítarlega yfir og ber kannski helst að nefna mál eins og velferð dýra og náttúrulögin. Ég er með miklar efasemdir um frumvarpið sem tengist Bakka og nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, að ógleymdri stjórnarskránni.

Getum við ekki sammælst um að það sé skynsamlegt að ákveða núna að við verðum fram að páskum í staðinn fyrir að láta eins og þingið klárist á morgun eða laugardaginn? Er ekki betra að vera pínulítið raunsær í staðinn fyrir að láta alltaf eins við lok þings? Það er einhvers konar óraunveruleiki og það er afar erfitt ef maður er til dæmis með fjölskyldu að geta ekki skipulagt tíma sinn betur. Fyrst og fremst er mjög erfitt að geta ekki skipulagt tímann betur í nefndum og til dæmis eru settir á nefndafundir með engum fyrirvara og maður getur ekkert sett sig inn í mál.

Eigum við þingmenn ekki að ákveða saman og skora á forseta að við verðum hérna fram að páskum?