141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Í morgun ræddum við í efnahags- og viðskiptanefnd frumvarp hæstv. fjármálaráðherra um að auka fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna í óskráðum verðbréfum úr 480 milljörðum í 600 milljarða. Eins og allir vita eru óskráð verðbréf áhættusöm fjárfesting þar sem upplýsingaskylda útgefenda um sjálf bréfin er engin. Frumvarp hæstv. fjármálaráðherra gengur gegn ráðleggjum rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna. Nefndin gagnrýnir að fjárfestingarheimild sjóðanna í óskráðum bréfum hafi verið aukin eftir hrun og mælir með því að heimildin verði lækkuð, frú forseti, en ekki hækkuð eins og frumvarp hæstv. fjármálaráðherra gengur út á.

Það er kaldhæðnislegt að nefnd sem var skipuð í kjölfar skýrslu rannsóknarskýrslunnar til að fara yfir fjárfestingarheimildir sjóðanna skuli nú leggja til að auka beri heimild sjóðanna til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum. Rök nefndarinnar um fjárfestingarheimildir sjóðanna eru að óskráð bréf séu áhættuminni en það gengur gegn reynslu annarra þjóða.

Nefndin gat þess líka að innstreymi iðgjalda í lífeyrissjóðina væri allt of mikið miðað við fjárfestingartækifæri innan hafta og það væri hætta á eignabólu. Lífeyrissjóðakerfið er allt of stórt fyrir íslenskt hagkerfi og því verður að breyta áður en illa fer.

Við eigum frekar að lækka iðgjaldið og auka hlut almannatryggingakerfisins í lífeyriskerfinu til að draga úr mikilli eignatilfærslu milli kynslóða og til að koma í veg fyrir að lífeyrir (Forseti hringir.) tapist í sama mæli og hann hefur gert hingað til. Slík breyting mun auka jöfnuð meðal lífeyrisþega, auka framboð fjármagns í nýsköpunarfyrirtækjum (Forseti hringir.) og draga úr þrýstingi á gengi krónunnar.