141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Pétri Markan fyrir prýðilega ræðu hér áðan. Hann vakti athygli á brýnu og tímabæru máli sem er full ástæða til að taka þeim tökum sem hv. þingmaður ræddi.

Mig langar að fjalla um annað mál og þau alvarlegu tíðindi í efnahagsmálum þjóðarinnar sem hafa verið að birtast okkur undanfarna daga. Því hafði verið spáð að hagvöxtur á árinu yrði 3,1% en nú er komið í ljós að á árinu 2012 var hagvöxturinn einungis 1,6%. Nú segja kannski sumir: 1,6%, það er ekki svo slæmt. Það er hins vegar alveg ljóst mál að ef við munum búa við þetta til frambúðar — og því miður eru ekki nein teikn um að ástandið sé að lagast — mun það hafa í för með sér aukið atvinnuleysi, aukinn landflótta, versnandi lífskjör og þar fram eftir götunum.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir til dæmis að 1,6% hagvöxtur dugi ekki til að vinna á atvinnuleysi og segir, með leyfi virðulegs forseta, orðrétt í Morgunblaðinu í morgun:

„Ef það á að draga úr atvinnuleysinu þarf hagvöxtur að vera yfir 4%. Hagvöxtur upp á 1,6% hins vegar dugar ekki til að halda sjó, hvað þá að fjölga störfum.“

Þetta er kjarni málsins. Þetta er það sem við ættum að vera að ræða þessa dagana. Þetta eru þau áhyggjuefni sem núna eru hvað alvarlegust. Við erum með öðrum orðum að festast í stöðnun og ekki bara það. Þetta eru afleiðingar þess að ekki hefur orðið fjárfesting í landinu eins og öll efni stóðu til. Sá hagvöxtur sem birtist á umliðnum árum var einungis afleiðing af mjög tímabundnum vexti á einkaneyslu. Nú er sú einkaneysla aftur að dragast saman. Þar með er fótunum kippt undan hagvextinum. Við vöruðum við því að hagvöxturinn sem mældist væri ekki varanlegur vegna þess að hann skorti alla forsendur, hann skorti fjárfestingu. (Forseti hringir.)

Nú er þetta að koma á daginn. Með minni hagvexti, minni fjárfestingum mun vaxa þrýstingur á gengið. (Forseti hringir.) Það veldur verðbólgu. Við erum stödd í vítahring. Ríkisstjórnin getur ekki rofið hann því að það er ekkert talsamband milli ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og aðila vinnumarkaðarins sem þurfa að geta talað saman.