141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Í upphafi vikunnar spurði ég hæstv. velferðarráðherra um ákveðið mál sem tengist Sólvangi í Hafnarfirði og þá var það náttúrlega staðfest sem við öll vitum að hjúkrunarrýmum hefur fækkað í tíð þessarar vinstri velferðarstjórnar. Þeim hefur fækkað og ráðherra staðfesti það.

Við sjáum það líka, m.a. á greinum frá forsvarsmönnum félaga eldri borgara vítt og breitt um landið að þeir eru afar óánægðir með það hvernig ríkisstjórnin hefur forgangsraðað.

Nú ber svo við að maður les mjög skemmtilega frétt á vísi.is um að innanríkisráðuneytið hafi krafið bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum um mjög nákvæmar og lagalegar skýringar á því hvers vegna bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum, þar sem margir góðir hlutir hafa verið að gerast og gerast enn, ákvað að fella niður fasteignagjöld á bæjarbúa sem eru orðnir sjötugir og eldri. Nú vill innanríkisráðherra fá skýringar á því af hverju þetta var gert.

Við vitum auðvitað að í lögum má fella niður fasteignagjöld á þá sem hafa lágar tekjur og kannski eðlilegt að innanríkisráðuneytið spyrji af hverju Vestmannaeyjabær taki þetta skref, að mínu mati með réttu, fyrir utan að bærinn er vel stöndugur og vel rekinn. En það er einfaldlega út af því að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skerðingar á kjörum og hag eldri borgara verið gríðarlegar og á þeim forsendum tekur Vestmannaeyjabær þetta eðlilega skref í ljósi þess að hann hefur m.a. efni á því. Við vitum að það er mikill samfélagslegur vilji í Vestmannaeyjum að gera betur við eldri borgara og þess vegna tekur bæjarstjórnin þetta skref.

Ég efa ekki að ef ríkisstjórnin er reiðubúin að leiðrétta kjör eldri borgara, og mundi t.d. miða við þann tíma áður en hún tók við, mun Vestmannaeyjabær að sjálfsögðu hugleiða þetta skref sitt. En ég vil sérstaklega fagna þessu skrefi hjá Vestmannaeyingum sem undirstrikar að ríkisstjórnin hefur í málefnum eldri borgara sem og á sviði heilbrigðismála algerlega skilað auðu og eiginlega verra en það á þessu kjörtímabili.