141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Í tilefni orðaskipta um framtíðarfyrirkomulag íbúðalánamála er rétt að rifja upp ágæta spurningu sem Sjálfstæðir Evrópumenn, samtök Evrópusinna í Sjálfstæðisflokknum, vörpuðu fram um daginn þegar þeir spurðu: Hvern munar ekki um eina íbúð? Þar áttu þeir við það að íslenskir íbúðakaupendur borga að meðaltali 2,5 íbúð á lánstíma á meðan íbúar á evrusvæðinu borga 1,5. Það ber sem sagt eina íbúð á lánstíma á milli íslenskra íbúðakaupenda og þeirra á evrusvæðinu. Þetta er meginmálið. Sem betur fer hafa neytendur í dag val um það hvort þeir taka verðtryggð eða óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum en það breytir ekki hinu að á meðan við búum við óbreytt fyrirkomulag gjaldmiðils og peningamála munu Íslendingar áfram greiða eina aukaíbúð á sínum lánstíma. Það skýrir auðvitað vaxtamunurinn, Íslandsálagið.

Hitt er svo annað mál hvort og hvernig er hægt að leiðrétta aftur í tímann tekin lán vegna breyttra forsendna eða forsendubrests. Það má vel vera að þar sé raunhæfasta leiðin að fara með einhverjum hætti í gegnum skattkerfið og skattafslætti. Það mun vonandi skýrast í umræðunum á næstu vikum og mánuðum, en hitt er meginmálið: Hvort sem við bönnum fólki að taka verðtryggð lán og þvingum alla til að taka óverðtryggð lán, sem mundi að margra mati þrengja mjög að kostum fólks með lágar tekjur almennt til að fá langtímalán, munu Íslendingar áfram borga eina umframíbúð á ævinni meðan við búum við óbreytt fyrirkomulag peningamála. Þetta er kjarni málsins og þessu skulum við halda til haga í umræðunni um verðtryggingu og óverðtryggð lán sem er oft ansi yfirborðskennd og skrumkennd. Þetta er kjarni málsins og við skulum hafa það í huga núna þegar við ræðum þessi mál í aðdraganda kosninga.