141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts.

612. mál
[11:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (U):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. innanríkisráðherra sem fer með forræði Íslandspósts. Þannig er að Íslandspóstur hefur boðað verulegar breytingar á gjaldskrá frá og með 1. apríl næstkomandi. Sú breyting veldur hækkun á dreifikostnaði blaða og tímarita sem eru í áskrift og er sú hækkun talin vera um nærri 30% hjá héraðsfréttablöðunum. Sú gríðarlega hækkun getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir útgáfu héraðsfréttablaða og dreifingu annars áskriftarefnis í dreifbýli og leiðir til mjög aukins misréttis fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Ritstjóri Skessuhorns vakti rækilega athygli á þessu fyrir nokkru síðan í blaði sínu þar sem hann talaði um að um 230% hækkun hefði orðið á dreifikostnaði Skessuhorns á síðastliðnum 12 árum. Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur lýst áhyggjum sínum af fyrirhugaðri hækkun Íslandspósts á póstburðargjöldum og leggur áherslu á að slík hækkun muni koma sér mjög illa fyrir fréttablöð á landsbyggðinni og í sumum tilfellum höggva nærri starfsgrundvelli þeirra, eins og segir í ályktun stjórnarinnar.

Öðru máli gegnir um blöð sem dreift er sem dreifiblöðum og eru ekki merkt áskrifendum, póstburðargjöld á þeim lúta þar allt öðrum lögmálum. Fréttablöð sem gefin eru út á höfuðborgarsvæðinu eru borin í hús án sérstaks kostnaðar. Alla vega er ekki hægt að jafna því saman við þá gífurlegu hækkun sem verður á dreifikostnaði á héraðsfréttablöðunum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geri sér grein fyrir því hversu alvarlegt það er fyrir prentfrelsi í landinu, fyrir fréttamiðlun, fyrir upplýsingagjöf og fyrir jafnrétti fólks óháð búsetu hvað þessa þjónustu varðar, því að þarna er beinlínis verið að vega að henni.

Ég vil líka vekja athygli á að Íslandspóstur heldur jafnframt þessu áfram að skera niður þjónustu við dreifbýli. Nú þessa dagana er verið að færa alla póstkassa í Borgarfirði, að ég tel, frá heimilunum, frá húsunum, þar sem þeir eru staðsettir, út að vegi. Fólk þarf því oft að fara margra kílómetra leið til þess að sækja póst sinn. Það er svipað og ef við settum bara upp röð af póstkössum (Forseti hringir.) í Ártúnsbrekkunni og segðum öllum Reykjavíkurbúum að sækja póst sinn þangað. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég ítreka spurningar mínar um hvort ráðherra hyggist grípa inn í þessi mál (Forseti hringir.) og það þá mjög skjótt.