141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts.

612. mál
[11:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Það er mjög mikilvægt að ráðherra stígi fram og reyni að leysa málið með framtíðarhagsmuni í húfi, ekki síst vegna þess að héraðsfréttamiðlarnir hafa mjög miklu hlutverki að gegna á landsbyggðinni og til þess að dreifa fréttum af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Það er ekki síst hlutverk þeirra að draga fram það jákvæða og athyglisverða sem er að gerast á landsbyggðinni, þjappa fólki saman o.s.frv.

Það er því fáránlegt að hugsa til þess að opinbert fyrirtæki fari í hækkanir sem verða til þess að þessir fjölmiðlar munu eiga erfitt með að reka sig. Það er mjög mikilvægt að ríkisvaldið komi í veg fyrir að slíkt verði að veruleika ef einhver möguleiki er á því. Þar af leiðandi tek ég undir orð hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, sem ég veit að hefur verið í sambandi við hæstv. innanríkisráðherra um málið.