141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

boðuð gjaldskrárhækkun Íslandspósts.

612. mál
[11:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (U):

Frú forseti. Ég þakka umræðuna sem sýnir að þessi mál eru ekki í lagi og sérstaklega ekki af hálfu stjórnvalda og stjórnsýslunnar. Ég hugsa að ég hafi oftast manna á undanförnum áratug tekið upp málefni póstþjónustunnar á hv. Alþingi. Ég átti mér þann draum þegar ég settist í ríkisstjórn að Íslandspóstur yrði tekinn til fullkominnar endurskoðunar, bæði starfsemi hans og áherslur. Það hefur ekki orðið. Ég tel þó að það sé mjög brýnt.

Hæstv. ráðherra minntist á leiðir sem fara mætti til að nálgast málið. Það er gott og blessað, en alverst er að gera ekki neitt, bara benda á leiðirnar og láta þær liggja fyrir en hafa engin önnur afskipti af málinu. Ég tel að þegar Íslandspóstur grípur til svona alvarlegra aðgerða gagnvart þjónustu í dreifbýlinu eigi það að fara til ráðherra og vera metið þar. Hann á ekki að hafa eitthvert sjálfsvald í þeim efnum vegna þess að á honum sé arðsemiskrafa og hann þurfi að skila eigendum sínum arði, þess vegna þurfi að reka fyrirtækið með þessum hætti.

Taka þarf forgangsröðun og starfsemi Íslandspósts til grundvallarendurskoðunar. Við horfum jafnframt á að vera að skera niður Íslandspóst, loka póststöðvum, bankaþjónustuútibúum og búið er að loka svæðismiðstöðvum Ríkisútvarpsins út um land. Það gengur alltaf þann veg án þess að gripið sé inn í og spurt: Þarf ekki að taka þetta upp og gera það með öðrum hætti?

Ég skora á hæstv. ráðherra, þó að stutt sé eftir af ráðherratímanum, að fresta gjaldskrárhækkuninni og láta fara fram grundvallarendurskoðun á starfsemi Íslandspósts og forgangsröðun á þeim verkefnum sem hann sinnir og því hvernig kostnaðurinn verður (Forseti hringir.) til í einstaka tilvikum. Ég hvet til þess að við verjum þessa grunnþjónustu.