141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

framgangur þingsályktunar um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks.

602. mál
[11:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég verð að gera alvarlegar athugasemdir við að hæstv. ráðherra hefur ekki brugðist við ályktun Alþingis frá því í maí síðastliðnum og mér heyrist því miður á máli hans að það standi ekki til. Þá verður manni fyrst hugsað til þess hvað sé þá til ráða.

Hæstv. ráðherra var falið tvennt af Alþingi. Annars vegar var honum falið að setja niður sérstakan starfshóp til þess að halda áfram tiltekinni vinnu, til þess að tryggja þverfaglega þjónustu og bætta heilbrigðisþjónustu við ungt fólk sem er hvorki börn né fullorðið. Hópurinn skiptir þúsundum og býr við mun verri heilbrigðisþjónustu en aðrir landsmenn og það þekkja allir. Sá hópur sækir ekki heilsugæsluna og í framhaldsskólunum er ekki heilsugæsla.

Það er annar þátturinn sem hæstv. ráðherra var falið að gera, að halda áfram þessari vinnu, vinna úr tillögum sem fyrir liggja. Í öðru lagi átti hæstv. ráðherra að hefja undirbúning að því að setja hér upp unglingamóttöku þar sem heilbrigðisþjónustan væri sniðin að þörfum þessa hóps, sem gæti verið fyrirmynd að því að þjónusta þennan hóp víða um landið, eins og hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir benti á áðan.

Hæstv. ráðherra. Ég verð að segja að það er ekki afsökun að vísa til heilbrigðisstefnu eða velferðarstefnu fram til 2020. Það þarf að horfa á þennan hóp sérstaklega. Auðvitað á að fjalla um hann í velferðarstefnu til 2020, en þessi hópur glímir við sértækan vanda, vil ég segja, sem heilbrigðisþjónusta og velferðarkerfi okkar kemur ekki nægilega vel til móts við. (Forseti hringir.) Þess vegna var tillagan samþykkt hér með öllum greiddum atkvæðum og þess vegna á hæstv. ráðherra að fara eftir henni.