141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Ég hef mikla sannfæringu fyrir því að það skipti máli að styrkja almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins. Ég hef líka mikla sannfæringu fyrir því að brýn þörf sé í samfélaginu fyrir öflugan almannaþjónustumiðil og ég vona að þetta frumvarp verði til þess að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins sem slíks.

Ég vil nota tækifærið og segja að þetta hefur verið mikil vinna og mikill undirbúningur hefur verið lagður í málið, mikið samráð hefur verið haft og ég tel að hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi líka unnið mjög gott starf í umfjöllun sinni um frumvarpið, bæði á síðasta þingi og þessu. Ég vil því nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd fyrir þeirra mikla starf og öfluga samráð sem þeir hafa líka viðhaft í sinni vinnu með von um að frumvarpið verði samþykkt á eftir og verði að nýjum lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.