141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:34]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum nú að ganga til atkvæða í þriðja skipti um RÚV. Verði frumvarpið samþykkt verða komin ný lög um RÚV.

Ég tel að hér sé um mjög gott og mikilvægt mál að ræða. Það er í anda flokkssamþykkta Framsóknarflokksins, við höfum viljað standa vörð um RÚV. Við teljum að það hafi alveg gríðarlega miklu lýðræðishlutverki að gegna, menningar- og fræðsluhlutverki. Sem betur fer ber almenningur mjög mikið traust til RÚV. Við teljum að með frumvarpinu verði áfram gætt að því að RÚV verði á markaði þó að verið sé að hemja það reyndar á auglýsingamarkaði og varðandi kostun. RÚV er samt enginn risi á auglýsingamarkaði eins og menn hafa talið, er með um 30% af auglýsingamarkaðnum á meðan helsti samkeppnisaðilinn er með 60%. RÚV fær núna útvarpsgjaldið óskipt þannig að í heildina er verið að styrkja RÚV.

Ég tel að þetta sé mjög mikið framfaramál og mun greiða því atkvæði með mikilli gleði.