141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:38]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með atkvæðagreiðslunni í dag lýkur umfangsmikilli endurskoðun á lögum um Ríkisútvarpið og prýðilega vel heppnaðri. Víðtæk samstaða hefur skapast um þessa endurskoðun í nefndinni, eins og fram kom hjá hv. framsögumanni Skúla Helgasyni, og hér eru stigin mörg mikilvæg umbótaskref í rétta átt. Til dæmis að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði með því að taka fyrir kostun nema í litlum undantekningartilfellum. Þá er hér lögfest skylda til að texta sjónvarpsefni og margt annað sem gerir það að verkum að Ríkisútvarpið verði áfram og enn öflugri kjölfesta á íslenskum fjölmiðlamarkaði en nokkurn tímann fyrr. Þetta snýst um það hvernig útvarpið er fjármagnað, hvert hlutverkið á að vera og hvert umfang þess á íslenskum örmarkaði eigi að vera og hvaða sanngirni skuli gætt gagnvart einkamiðlunum þannig að þeir fái þrifist líka við hliðina á þessari miklu og stóru kjölfestu. Hér er verið að efla, bæta og styrkja stöðu Ríkisútvarpsins í jákvæðum skrefum í rétta átt.