141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem kom inn í allsherjar- og menntamálanefnd á síðustu stigum þessa máls, flytjum hér breytingartillögu í tengslum við það sem við sjálfstæðismenn höfum ávallt sagt varðandi Ríkisútvarpið. Það er hægt að vera ósammála um það en ég vil þó meina að við getum sammælst um að við eigum að forgangsraða innan Ríkisútvarpsins, m.a. forgangsraða í þágu innlendrar dagskrárgerðar, íslenskrar dagskrárgerðar í samvinnu við sjálfstæða framleiðendur víða um land.

Þess vegna leggjum við þetta til því að málin hafa þokast allt of hægt. Allir flokkar eru sammála um að vilja efla innlenda dagskrárgerð en Ríkisútvarpið verður að fara meira en bara hænufet í þessum málum. Þess vegna leggjum við hér til að minnst 20% af fjárveitingum til dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins skuli varið til kaupa á innlendu efni af sjálfstæðum framleiðendum. Ég vona að þingheimur sjái sér fært að styðja þessa ágætu tillögu.