141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég átti þess kost á síðasta þingi að sitja í allsherjar- og menntamálanefnd og vinna að breytingum á frumvarpi sem þá var lagt fram um ríkisfjölmiðilinn. Ég hef ekki átt sæti í nefndinni á þessu þingi en ýmsar athugasemdir sem við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þá og nú höfum lagt fram hafa orðið að veruleika.

Ég vil fyrst og síðast skoða 16. gr. sem er til bóta eins og hún liggur fyrir nú, þótt lengra hefði mátt ganga. Ég óttast hins vegar, virðulegur forseti, 12. gr., þar sem sett er sérstaklega í lög að útvarpsstjóri eigi að búa til starfsreglur og þar stendur líka hvað eigi að vera í starfsreglum. Mér finnst sérstakt um stofnun á vegum ríkisins að svo sé sagt fyrir um í lögum. Ég er líka ósátt við, virðulegur forseti, að á síðustu metrum kjörtímabilsins skuli vera lagt til að markaðar tekjur ráði jafnmikið för og gert er í frumvarpinu.

Virðulegur forseti. Margt er hér gott, (Forseti hringir.) en í ljósi þess sem ég hef sagt sit ég hjá við atkvæðagreiðslu þessa frumvarps.