141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[14:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal er þetta frumvarp lagt fram til þess að lagfæra mistök sem urðu í lagasetningu í desember. Þegar frumvarpið var keyrt í gegnum þingið á síðustu dögum fyrir jól var varað við því að málið væri allt of seint fram komið og hefði fengið allt of skamman tíma í málsmeðferð í þinginu.

Ég er á sama stað og hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég mun ekki greiða atkvæði gegn þessu vegna þess að ég er ekki á móti því að lagfæringarnar séu gerðar, en ég styð hins vegar ekki þá skattheimtu sem hér er á ferðinni. Ég tel því réttast að sitja hjá.

Þetta ætti að vera umhugsunarefni fyrir hv. þingmenn um það hvernig mál eru unnin í þinginu og umhugsunarefni fyrir ráðherra ríkisstjórnarinnar sem leggja fram svona mál allt of seint og hafa ekkert bætt ráð sitt nema síður sé þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um vandamál sem því fylgja.