141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[14:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan held ég að oftúlkun á ákvæðinu hafi valdið þessum titringi í morgun. Eins og ég kom inn á áðan hefur Seðlabankinn haft full tök á að setja reglur um fjárfestingarheimildir sem varða krónur í eigu erlendra aðila, þ.e. aflandskrónur. Sú breyting sem hér er lögð til varðar fjárfestingarheimildir fyrir aðrar krónur í eigu erlendra aðila, svokallaðar álandskrónur. Meginbreytingin sem verður með því að fella niður ákvæðið sem tengir fjárfestingarheimildir við veðlánareglur, eins og nú er í dag, er að þá falla heimildirnar núna undir reglur Seðlabankans og hann hefur þá heimild til að taka tenginguna við veðlánareglur úr sambandi. Þetta er sú breyting sem um er að ræða og á meðan Seðlabankinn er ekki að nýta neina heimild til þess að breyta þessu þá gilda sömu reglur og áður. Það er bara svo einfalt.