141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Á eldhúsdegi ræðum við um afrakstur þingsins, afrakstur kjörtímabilsins. Við getum í stuttu máli sagt að þessu sinni að árangurinn sé langt undir væntingum. Jafnvel þótt við miðum við mælikvarða ríkisstjórnarinnar sjálfrar held ég að ég geti fullyrt að niðurstaðan er mikil vonbrigði.

Ég ætla að nota minn tíma hér í kvöld til þess að ræða lausnir á þeim margþætta vanda sem við stöndum frammi fyrir. Skuldir heimilanna hafa vaxið gríðarlega, eignir rýrnað og þúsundir heimila berjast í bökkum. Það líður vart sá dagur að ég heyri ekki í fólki í þessu landi sem segir mér að það eigi ekki fyrir útgjöldum um mánaðamót. Það á jafnt við um einstæðinga, barnafjölskyldur, öryrkja og eldri borgara, sem hafa þurft að sæta óheyrilegum og ósanngjörnum skerðingum. Atvinnulífið er í dróma. Hér verða ekki til ný störf og fjárfesting er í algjöru lágmarki.

Skattar eru of háir og of flóknir. Það er 1501 dagur frá því að þessi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tók við. Á þeim tíma hefur hún gert hátt í 200 breytingar á skattkerfinu, hækkað skatta, aukið flækjustig og lagt á ný gjöld.

Ríkissjóður er rekinn með geigvænlegum halla ár eftir ár. Nýjustu tölur Hagstofunnar sýna að á síðasta ári var halli ríkissjóðs um 60 milljarðar. Það er þrisvar sinnum meiri halli en að var stefnt. Árin 2010, 2011 og 2012 var uppsafnaður halli ríkissjóðs 300 milljarðar kr. Á sama tíma eru margar mikilvægar stofnanir í landinu fjársveltar. Af þeim koma heilbrigðisstofnanir og löggæsla fyrst upp í hugann.

Við búum enn við gjaldeyrishöft. Þau voru upphaflega sett til einungis tveggja ára. Einnig vil ég nefna að verðbólga undanfarna 18 mánuði hefur verið á milli 4 og 6,5%. Það er alvarlegt mál. Þetta eru verkefnin sem bíða þess að komast í forgang. Þau er hægt að leysa. Þau er svo sannarlega hægt að leysa, góðir landsmenn.

Málefni heimilanna eiga að vera í fyrirrúmi. Við sjálfstæðismenn ætlum að leggja allt kapp á að auka ráðstöfunartekjur fyrir heimilin með markvissum aðgerðum, svo sem lækkun skatta, aðstoð við heimilin til að laga skuldastöðu sína. Lækkun skatta og skulda einstaklinga og fjölskyldnanna í landinu er lykilatriði.

Í fyrsta lagi teljum við bráðnauðsynlegt að taka tekjuskattinn til endurskoðunar, að lækka tekjuskatt og einfalda tekjuskattskerfið.

Í öðru lagi viljum við fleyta séreignarsparnaði beint inn á lán án skattlagningar.

Í þriðja lagi lækka og einfalda skattana almennt þannig að krónunum í launaumslaginu fjölgi. Þannig munu krónurnar líka nýtast betur þegar almennir skattar og önnur gjöld sem hafa farið síhækkandi allt þetta kjörtímabil taka að lækka að nýju.

Fyrir heimilin þarf líka að endurskipuleggja húsnæðislánamarkaðinn og setja skýra stefnu gegn almennri notkun verðtryggingarinnar. Í staðinn komi óverðtryggð lán með föstum vöxtum og þar er verkefnið að tryggja skilyrði fyrir fasta vexti til langs tíma.

Virðulegi forseti. Með þessum aðgerðum getum við á örfáum árum aðstoðað heimilin við að lækka höfuðstól húsnæðisskulda um 20%. Það er munurinn á því að grípa til þessara aðgerða eða gera ekki neitt. Það er mikilvæg aðgerð.

Stöðnun og verðbólga saman á sama tíma er einhver versti kokteill sem hægt er að bjóða upp á, en það virðist því miður ætla að vera kokteillinn sem ríkisstjórnin skilur eftir á borðinu þegar hún fer frá. Nýjar tölur Hagstofunnar sýna okkur nefnilega að það er algjör stöðnun í hagkerfinu. Hagtölur fyrir síðasta ár sýna okkur að þá var hagvöxtur 1,6%. Hver er ástæðan? Jú, það er þannig að atvinnulífið heldur að sér höndum og það birtist í því að fjárfesting er botnfrosin. Það gerist þrátt fyrir sérstaka áætlun ríkisstjórnarinnar um að auka opinbera fjárfestingu og loforð forsætisráðherra um að leita markvisst leiða til að örva fjárfestingu innlendra og erlendra aðila eins og það var orðað á sínum tíma.

Í fyrra var loks samþykkt þingsályktun um beina erlenda fjárfestingu, rúmum þremur árum eftir að slíkt loforð var gefið. Ekkert hreyfist samt. Helst átti ekki að ræða við erlenda fjárfesta öðruvísi en undir regnhlíf rammaáætlunar um fjárfestingar. En nú er svo komið að ríkisstjórnin þarf að gera sérstakan ívilnandi samning hlaðinn loforðum til þess að hreyfa við hlutunum.

Það sem blasir við er að tækifæri skortir ekki á Íslandi. Hér skortir svo sannarlega ekki tækifæri. En það er pólitísk óvissa og slæm reynsla af samskiptum við stjórnvöld sem fælir bæði innlenda og erlenda fjárfesta frá. Þessu verðum við að breyta. Það gerum við með því að skapa hér pólitískan og efnahagslegan stöðugleika með þann vilja að leiðarljósi að gera betur í þágu allra Íslendinga.

Góðir landsmenn. Eitt stærsta hagsmunamál heimilanna er örugg og stöðug atvinna. Í þágu fólksins í landinu munum við setja kraft í atvinnulífið að nýju. Fyrsta verkefnið verður að lækka skattprósentu og einfalda skattkerfi atvinnulífsins. Og tryggingagjaldið verður þar efst á lista vegna þess að tryggingagjaldið er ekkert annað en skattur á atvinnulífið fyrir það að ráða til sín fólk.

Í lok janúar voru rúmlega 9 þús. manns á atvinnuleysisskrá. Það væri ráð við þessar aðstæður að létta byrðar fyrirtækjanna svo þau geti virkjað þetta fólk til starfa og borgað því laun fyrir að skapa verðmæti.

Það er kominn tími til að hér taki við ríkisstjórn sem segir hátt og snjallt: Við stöndum með atvinnulífinu og við viljum gera allt sem hægt er til að það blómstri.

Ríkisstjórn á Íslandi þarf að fagna velgengni fyrirtækjanna og bjóða upp á stöðugt og vinsamlegt rekstrarumhverfi til þess að atvinnustarfsemin í landinu blómstri. Við eigum að hafa í landinu ríkisstjórn sem gerir allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja að tækifærin sem eru til staðar verði gripin. Íslendingar vilja nefnilega halda áfram að gera það sem þeir gera best, að vinna og skapa verðmæti. Það skiptir engu hvort það er í sjávarútvegi, landbúnaði, forritun, fiskvinnslu, tónlist, hugbúnaðargerð, hönnun eða öðru.

Einu sinni þótti langsótt hugmynd að selja norðurljósin á Íslandi en nú er hún með sínum hætti orðin að veruleika í dag þegar þúsundir koma til Íslands, margir hverjir til þess eins að geta litið norðurljósin augum.

Góðar hugmyndir sem verða að veruleika eru auðlind framtíðarinnar. Þess vegna eigum við að ýta undir frumkvæði og nýsköpun á Íslandi. Tækifærin eru óþrjótandi svo stjórnvöld þurfa einungis að taka ákvörðun um að styðja við og hvetja en ekki þvælast fyrir og letja.

Góðir áheyrendur. Til að loka fjárlagagatinu verður að hefja nýtt vaxtarskeið. Fjárlagagatinu verður ekki lokað með neinum öðrum hætti en að við hefjum nýtt vaxtarskeið á Íslandi. Með því að fjölga störfum og auka umsvifin vaxa tekjur ríkissjóðs og um leið styrkjum við getu okkar til að standa undir sameiginlegum kostnaði. Aðhald og ábyrgð í opinberum rekstri er áfram nauðsyn, en endalaus flatur niðurskurður til að jafna fjárlagahallann er ekki valkostur. Við sjáum það bersýnilega á heilbrigðiskerfinu að við erum komin niður fyrir sársaukamörk.

En hallareksturinn verður að stöðva. Vaxtakostnaðurinn einn og sér, takið eftir þessu, vaxtakostnaðurinn einn og sér er orðinn þrisvar sinnum hærri en árlegur rekstrarkostnaður Landspítalans. Við þetta verður ekki búið lengur.

Aukin framleiðsla í landinu með skynsamlegri nýtingu auðlindanna og sköpun nýrra starfa í öllum greinum er leiðin fram á við.

Virðulegi forseti. Við verðum að hafa trú á þeim möguleikum sem við okkur blasa. Við eigum að þora að nýta auðlindir okkar, bæði á sviði náttúru og mannauðs, og treysta því að skynsamleg áætlun um afnám haftanna ásamt traustum og spennandi fjárfestingarkostum myndi það jafnvægi sem þarf til þess að létta af okkur gjaldeyrishöftunum vegna þess að ný ríkisstjórn verður að setja afnám haftanna í forgang. Til þess þarf verulegar afskriftir krafna á þrotabú bankanna ásamt með öðrum aðgerðum, en við eigum að sameinast um eitt, að láta heimilin og atvinnulífið ekki lengur búa við þá spennitreyju sem gjaldeyrishöftin eru.

Góðir landsmenn. Ný ríkisstjórn verður að hefjast handa strax með þær aðgerðir í forgrunni sem ég hef hér rakið, að bjóða aðilum vinnumarkaðarins til samstarfs. Strax að afstöðnum kosningum verður að láta reyna á samhent átak stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um að hefja nýja sókn með vöxt og stöðugleika sem meginmarkmið. Mörg jákvæð teikn eru á lofti um vaxandi skilning á mikilvægi þess að ný þjóðarsátt líti dagsins ljós. Með því væri mikilvægur hornsteinn endurreisnarinnar lagður því að heimilin og atvinnulífið eiga svo mikið undir því að okkur takist að kveða niður verðbólguna. Mikilvægur liður í því er síðan aftur að kjarabætur haldist í hendur við aukna verðmætasköpun. Fyrsta stóra skrefið verður stigið eftir 45 daga þegar við göngum til kosninga, stokkum upp spilin og segjum skilið við núverandi stjórnarstefnu. Það er ekki bara skynsamlegt, það er nauðsyn. Það er þjóðarnauðsyn.

Virðulegi forseti. Við eigum að taka á móti vorinu með bjartsýni og kjark í brjósti. Látum hækkandi sól fylla okkur trú á framtíðina, fylla okkur trú á fólkið, gæði landsins og óþrjótandi möguleika til að sækja fram á öllum sviðum. Fyllumst trú á framtíð Íslands.