141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Á þessu stillta og bjarta kvöldi þegar við finnum fyrir návist vorsins eigum við að muna eftir orðum skáldsins:

Og angan rósa rauðra

mun rísa af gröfum dauðra.

Víst er um það að hvernig sem allt veltist vorar í þessu góða landi.

Að baki er kjörtímabil erfiðrar glímu. Ríkisstjórnin forðaði þjóðinni frá efnahagslegu hyldýpi, varði þá sem lakast standa fyrir afleiðingum efnahagshrunsins, náði tökum á ríkisfjármálum og innsiglaði margháttaða sigra í baráttunni fyrir jöfnum tækifærum, borgararéttindum og jafnrétti. Á sviði umhverfis- og náttúruverndar blasa hvarvetna við stórir sigrar. Við höfum unnið að og vinnum enn að því að tryggja þjóðinni eðlilega hlutdeild í arði af auðlindum sínum.

Þrátt fyrir þröngan fjárhag tókst okkur að auka tækifæri ungs fólks í atvinnuleysi til mennta og hefja byggingu þeirra hjúkrunarheimila fyrir aldraða sem ekki voru peningar til að byggja meðan smjör draup af hverju strái. Fyrir þinginu liggur nú nýtt frumvarp til almannatrygginga sem er stærsta framfaraskref í lífskjörum eldri borgara í áratugi. Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem leitt hefur þetta starf hefur verið óþreytandi talsmaður þeirra sem lökust hafa kjörin frá því að hún var kjörin á þing fyrir 35 árum, þá níunda í röð kvenna á Alþingi og ein aðeins þriggja kvenna sem fengu sæti á Alþingi árið 1978. Í dag vill svo skemmtilega til að 30 ár eru liðin frá stofnun Samtaka um kvennalista sem breyttu íslenskum stjórnmálum varanlega. Vegna þessara brautryðjenda allra eru konur nú um 40% þingmanna og við þurfum að stefna að því að það hlutfall aukist enn.

Undanfarin ár hafa leitt yfir íslenskt þjóðlíf meiri átök, harkalegri orðræðu og ábyrgðarlausara daður við ofbeldi en dæmi eru um í nútímasögu okkar. Við þekkjum af reynslunni hina svart/hvítu heimsmynd kalda stríðsins sem markaði öllum bás. Sagt hefur verið að í þeim svart/hvíta heimi hafi verið lítið pláss fyrir menn í lit. Áreiðanlega finnst mörgum þeir hafa verið í slíkri stöðu síðustu ár.

Alþingi hefur liðið fyrir þetta ástand og traust á því minnkað af skiljanlegum ástæðum. Fram undan er að þróa nýja íslenska stjórnmálamenningu sem byggir á því besta úr þingræðishefð okkar, nýtir afl almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu en gefur þinginu líka stöðu til að standast áhlaup háværra en fámennra þrýstihópa. Stjórnmálin eru að læra að nýta þjóðaratkvæðagreiðslur. Við virtum þjóðarviljann í Icesave-málinu og við munum líka þurfa að virða hann í stjórnarskrármálinu. Um það munu alvöruflokkar ekki eiga neitt val.

Hrunið hefur reynt á okkur öll en með ólíkum hætti þó. Sumir hafa misst vinnu og forsendur til að láta enda ná saman. Við höfum sett þá í forgang. Aðrir skynja að þótt gjaldþrot blasi ekki við er kostnaðurinn af hruninu þungur; lægri laun, hærri skuldir og þyngri skattar. Spyrjum okkur: Er eitthvað af þessu að fara að breytast í bráð? Við getum breytt um takt. Við getum markað nýja braut. Tækifærið er núna.

Stærsti vandi hagstjórnarinnar síðustu ár er að krónan kollsteyptist og það skildi eftir illleysanlegan skuldavanda og gjaldeyrishöft. Á einni nóttu urðum við hálfdrættingar í launum á við norrænar þjóðir eftir að hafa fylgt þeim eftir í fölsku öryggi árin fyrir hrun. Skammgóður efnahagsbati var fenginn árin 2009–2011 með gengisfellingunni. Þar á ferð var ekkert nýtt íslenskt efnahagssnjallræði. Við færðum bara, eins og svo oft áður, peninga frá vinnandi fólki og lífeyrisþegum til útflutnings- og samkeppnisgreina.

Nýjar og lakari hagtölur og vaxandi viðsjár um horfur í efnahagsmálum landsins á næstu missirum færa okkur heim sanninn um að við verðum að marka nýja leið. Það er ekki að ástæðulausu sem ekkert ríki í Evrópu hefur sjálfviljugt kosið hina þrautreyndu íslensku leið, að afsala sér evrunni og taka aftur upp drökmur, pund eða peseta, fella gengi um 50% og búa við gjaldeyrishöft og efnahagslega einangrun um áratugi. Í þessari leið felst engin framtíðarsýn, engin von og alvarlegur skuldavandi. Erlend fjárfesting er fjarlægari en nokkru sinni fyrr. Þessi leið tryggir aldrei stöðugleika og samkeppnishæf lífskjör.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson rakti áðan vaxtakostnað þjóðarinnar sem nemur þreföldum rekstrarkostnaði Landspítalans. Kostnaðurinn af krónunni, varlega metinn, nemur árlega fimmföldum rekstrarkostnaði Landspítalans.

Við þurfum að marka nýja braut. Þess vegna má ekki loka leiðum að óþörfu. Í þessari skrýtnu stöðu skipbrots máttlausrar stjórnmálahefðar og úreltrar efnahagsstefnu felast ómæld tækifæri. Í þetta sinn duga engir plástrar, engar reddingar og engar heitstrengingar um að gera bara betur næst. Þetta reddast ekkert. Það þarf grundvallarbreytingar. Ný kynslóð þarf að mæta nýjum verkefnum og nýta þau tækifæri sem þetta undarlega ástand skapar.

Góðir Íslendingar. Fyrir nokkrum dögum voru samþykkt hér ótímabundin gjaldeyrishöft. Síðast þegar slíkt ástand var sett á varði það í 65 ár. Viljum við áfram vera þjóð í höftum þegar við verðum komin á eftirlaun og börnin okkar kannski líka?

Forstjóri Össurar skýrði frá því í morgun að fyrirtæki hans gæti ekki búið áfram við þær aðstæður sem fyrirtækinu eru búnar hér á landi. Þetta fyrirtæki hefur verið í fararbroddi á heimsvísu, og iðnmenntun og verkþekking í landinu á engan glæsilegri fulltrúa. Viljum við í alvöru missa það og önnur slík úr landi?

Við þurfum að mæta erfiðleikum og ótta fólks um afkomu með raunverulegum svörum um trúverðugar leiðir. Engar töfralausnir, bara þær leiðir og lausnir sem nágrannalönd okkar hafa gripið til þegar kreppt hefur að. Það eru lausnir ábyrgs markaðshagkerfis, alþjóðlegrar efnahagssamvinnu, alvöruréttinda launafólks og raunverulegs lífskjarabata. Ekki áframhaldandi bóluhagkerfi og gengisfellingar.

Af hverju á það að vera veðmál að kaupa sér íbúð? Við Íslendingar borgum íbúðina okkar tvisvar og hálfu sinni á meðan fólk í Evrópulöndunum gerir það einu og hálfu sinni. Af hverju þykir það sjálfsagt mál? Munar okkur virkilega ekki um heila íbúð? Það er algjör óþarfi að fólk þurfi að flýja land til að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að fá laun í sama gjaldmiðli og það skuldar í, búa við stöðugt verðlagt og lága vexti. Við getum alveg flutt þetta ástand inn. Við þurfum ekki að flytja fólkið og fyrirtækin út.

Fyrir kosningarnar í vor verða margir til að bjóða kollsteypur og töfralausnir. Við jafnaðarmenn verðum ekki í þeim hópi, því get ég lofað. Við bjóðum upp á þrautreynda formúlu. Við bjóðum upp á samfélagssýn norrænna jafnaðarmanna sem hefur um áratugaskeið byggst á hugmyndinni um þjóðarheimilið þar sem allir eiga heima og eru metnir að verðleikum á eigin forsendum. Þar er ekki hægt að lækka laun vinnandi fólks og bætur lífeyrisþega um helming til að leysa heimatilbúinn efnahagsvanda. Þar er fólk ekki skilið eftir með óviðráðanlega skuldabyrði af íbúðalánum. Þar er unnið í sátt við fjölbreytt atvinnulíf og því búin sambærileg samkeppnisskilyrði og í nálægum löndum. Á þjóðarheimili Íslendinga verðum við líka að hafa frið, frið til að hugsa, frið til að vinna og frið til að vera við sjálf. Við getum verið ósammála um aðferðir og leiðir en við ræðum okkur að niðurstöðu. Umfram allt megum við hafa ólíkar skoðanir, vonir og þrár. Því að viljum gott samfélag fyrir frjálshuga og fordómalaust fólk, fólk sem vill líf í lit, en ekki búa í svart/hvítum heimi.

Mestu skiptir að við treystum því og trúum að Ísland hafi öll færi á að vera vettvangur kraftmikils atvinnulífs og gróandi þjóðlífs og að ef við bara nýtum tækifærið geti hver einstaklingur og hver fjölskylda búið við meira öryggi, rismeira samfélag og betri lífskjör hér en annars staðar.

Við skulum saman gera það sem þarf til að tryggja það.