141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:35]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Góðir landsmenn. Það er undarlegt að standa hér í lok þessa sérstaka kjörtímabils og eiginlega kveðja og þakka fyrir sig, þakka traustið sem kjósendur sýndu mér og öllum hinum 62 þingmönnunum sem kosnir voru á Alþingi vorið 2009, án þess að við höfum áorkað því sem til stóð að gera.

Vissulega voru verkefni okkar risavaxin og ljóst að okkur tækist aldrei að leysa allan vanda á þessum fjórum árum. Og sumt hefur þó batnað, jafnvel farið á besta veg.

Borgarahreyfingin var eina stjórnmálaaflið sem var með eitthvað um Icesave á sinni stefnuskrá og við, þingmenn Hreyfingarinnar, sýndum ásamt þjóðinni, ýmsum samtökum og sérfræðingum, Framsóknarflokknum og forsetanum þá staðfestu sem þurfti til að ljúka því máli farsællega.

Atvinnuleysi hefur minnkað, hagvöxtur er í plús og skurkur hefur verið gerður í mannréttindamálum og umhverfismálum. Og sólin kemur upp á hverjum morgni, börn halda áfram að fæðast og grasið er farið að grænka á nýjan leik. Á eftir vetri kemur vor.

En samt er svo margt enn að.

Bankarnir sem fóru svo eftirminnilega á hausinn fyrir rúmum fjórum árum hafa síðan þá skilað 214 milljarða hagnaði.

Heil kynslóð fólks, 25–45 ára, hefur horft á ævisparnað sinn brenna upp og er eignastaða þessa hóps nú neikvæð. Þetta fólk skuldar meira en það á og hefur því engu að tapa. Slík staða er hverri þjóð hættuleg.

Kynslóðum hefur verið att saman, fulltrúar þeirra eldri tala um sjálfhverfu kynslóðina sem heimtar og heimtar, þeir yngri segja þá eldri af frekjukynslóðinni sem fékk húsnæðislán sem brunnu upp á verðbólgubáli á kostnað kynslóðarinnar þar á undan en heimtaði svo verðtryggingu á sparnaðinn sinn.

Síðustu fjögur ár hefur ríkisstjórnin vart haft undan við að finna upp og kynna svokölluð úrræði fyrir skuldsett fólk. Fyrst var hafist handa við að bjarga kúlulánaþegum og fólki sem hafði tekið lán til hlutabréfakaupa og vegna viðskipta með afleiður. Það var kallað „að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis“. Þetta var forgangsverkefni norrænu velferðarstjórnarinnar. Aðrir hafa verið sendir í biðröð hjá umboðsmanni skuldara eða bara látnir berjast vopnlausir við ýmsa riddara, svo sem Dróma og vogunarsjóðina sem hirtu bankana.

Til friðþægingar hafa vaxtabætur verið auknar og má líta á það sem beinan ríkisstyrk til fjármálafyrirtækja með stuttri millilendingu á bankareikningum þeirra tæplega 80 þús. einstaklinga sem eiga ekki svo mikið sem eina krónu í banka samkvæmt skattframtali.

Eitt það fyrsta sem gert var sumarið 2009 var að rýra kjör lífeyrisþega. Fengu þeir þrjár daga til aðlögunar. Um tímabundna aðgerð var að ræða, skerðingin átti að vara í þrjú ár. Þau eru nú liðin án þess að kjör lífeyrisþega hafi verið færð í sama horf aftur og frumvarp mitt þess efnis situr fast í nefnd.

Það er svo margt að hjá okkur.

Við erum þó rík, þrátt fyrir allt. Hér býr fámenn, vel menntuð þjóð og landið er auðugt að auðlindum. Í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október sl. vildu 74% kjósenda að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu væru lýstar þjóðareign. Geta skilaboðin verið skýrari?

Maður spyr sig hvers vegna stjórnarflokkarnir hafa ekki staðið við það loforð að kalla inn kvótann. Enn er verðmætustu auðlindinni útdeilt til örfárra fyrir lítilfjörlegt gjald.

Það er svo margt að.

Þessi fjögur ár hef ég þó geymt í brjósti mér þá von að við sem byggjum Ísland getum skapað réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð, þar sem ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og við berum saman ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Okkur sárvantar samfélagssáttmála, okkar eigin stjórnarskrá þar sem réttindi okkar eru tryggð sem og skyldur ríkisins gagnvart þegnunum, réttur okkar til að vita, réttur okkar til að lifa með reisn, réttur okkar til að lifa án ofbeldis, réttur til heilnæms umhverfis; stjórnarskrá sem tryggir að atkvæði allra á landinu vegi jafnt og færir fólkinu aukin völd. Síðast en ekki síst tryggir hún eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum.

Síðustu ár höfum við unnið að gerð þessa sáttmála, ekki bara við í þinginu eða 25 manna stjórnlagaráð. Allri þjóðinni hefur verið boðið að borðinu, ekki einu sinni heldur oft. Umheimurinn fylgist með af aðdáun og dáist bæði að ferlinu og niðurstöðunni.

Afrakstur stjórnlagaráðs var góður. Síðan það skilaði af sér hefur þó mikið starf verið unnið. Helstu sérfræðingar, innan lands sem utan, hafa verið kallaðir til ráðgjafar og öllum hefur verið gert kleift að senda inn ábendingar. Og þingið hefur virkilega hlustað, velt við hverjum steini, vegið og metið hvert smáatriði.

Og nú erum við stödd við enda ganganna. Við sjáum ljósið. Við erum næstum komin alla leið þegar lítill hópur í þinginu ákveður að best sé að fresta málinu eða jafnvel búta það niður. Limlesta það. Kasta til höndum. Kasta því. Kasta upp. Allt er það gert í nafni sátta og samstöðu, eins undarlega og það hljómar.

Kæra þjóð, aldrei áður í sögunni hefur þjóðaratkvæðagreiðsla verið hunsuð. Munum hverjir leggja slíkt til. Okkur þingmönnum ber siðferðisleg skylda til þess að klára þetta mál. Við þingmenn verðum að greiða atkvæði um málið í þingsal svo raunverulegur vilji þingsins komi í ljós. Það er ekki boðlegt að við þingmenn afsölum okkur ábyrgðinni á málinu yfir á þá sem verða í þessum sal eftir kosningar. Þetta er okkar verkefni.

Kæra þjóð, senn líður að kosningum. Ljóst er að kjósendur munu hafa úr óvenjumörgum nýjum kostum að velja. Einn þeirra heitir Dögun, stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Þar er samankomið hugsjónafólk sem vill berjast fyrir því sem skiptir okkur mestu. Í okkar huga eru það efnahagsmálin, þar með talin lausn á skuldavanda heimilanna, leiðréttingar lána, afnám verðtryggingar og atlaga við snjóhengjuna, lýðræðisumbætur og ný stjórnarskrá. Við viljum auðlindir í þjóðareigu og uppstokkun á stjórn fiskveiða auk siðvæðingar í stjórnmálum og fjármálakerfinu.

Ég þakka þeim sem treystu mér til að vinna fyrir þjóðina síðustu fjögur ár. Ég hef gert mitt besta og þykir miður hvað það hefur dugað skammt. Ljóst er að verkefninu er ekki lokið. Því hef ég ákveðið að gefa kost á mér undir merkjum Dögunar í næstu kosningum.

Verkefnin fram undan eru ekki síður risavaxin en þau sem biðu okkar vorið 2009. Ef við höfum eitthvað lært er það það að við getum þetta ekki nema við stöndum saman. Við erum öll í sama báti og nú þarf að róa.