141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:43]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Kæru landsmenn. Mig langar að byrja á því að tala aðeins um þessa pontu. Þetta er mjög virðuleg ponta, hún er falleg og hún er tæknileg og sjálfsagt berum við öll mjög mikla virðingu fyrir henni. En það er eitt við hana sem mig langar að benda á. Hún hentar ekki öllum. Núna eru til dæmis verulegar líkur á að mannréttindabaráttukonan Freyja Haraldsdóttir verði þingkona eftir kosningar. Þessi ponta hentar ekki Freyju. Ef ég þekki Freyju rétt mun hún fara fram á það að pontunni verði breytt eða þinghaldinu breytt þannig að hún geti til jafns við aðra tekið þátt í því sem hér fer fram.

Hvers vegna er ég að minnast á þetta í upphafi ræðunnar? Jú, vegna þess að ég vil meina að samfélagið allt sé uppfullt af pontum sem henta ekki. Við sjáum það kannski ekki, við erum kannski búin að missa sjónar af því. Við skulum fara aðeins í gegnum samfélagið og hvernig það birtist okkur núna.

Tölum um stjórnmál. Það er einstaklega fráhrindandi og hentar ekki fólki að taka þátt í þeim stjórnmálum sem við stundum oft hér í þessum sal. Ásakanir ganga á víxl, við klárum ekki mál, við eyðum tíma í vitleysu. Þetta hentar ekki.

Björt framtíð er frjálslyndur flokkur. Með frjálslyndi meinum við að við lítum á það sem grundvallarverkefni í stjórnmálum að búa þannig um hnútana í samfélagi að sem flestir geti notið sín, að við sköpum svokallað verðleikasamfélag, að fólk geti með dugnaði sínum uppskorið, að fólk geti notið hæfileika sinna. Þetta kann að hljóma í eyrum fólks og líta út í augum fólks sem sjálfsagður hlutur.

En erum við á þessum stað með íslenskt samfélag? Ég vil meina ekki. Ég held að við höfum náð að byggja upp á Íslandi of mikið sveiflu- og klíkusamfélag sem leiðir til þess að það er of tilviljanakennt hvenær fólk uppsker vegna dugnaðar síns.

Við skulum fara í gegnum sviðið. Byrjum á efnahagslífinu, grunnurinn er skakkur, krónan hentar ekki heimilum, hún hentar ekki fyrirtækjum. Hún gerir það að verkum að fyrirtæki geta ekki gert plön. Lán eru of dýr, áhættan í efnahagskerfinu er of mikil. Þessu verður að breyta, þetta er ponta sem hentar ekki. Við erum að nota þau tæki og tól sem við höfum í atvinnulífinu á vitlausan hátt. Við gætum notað orkuauðlindir okkar til að búa til miklu meiri arð, til að búa til miklu fjölbreytilegra atvinnulíf sem mundi henta fólki. En við erum ekki að því.

Skoðum skólakerfið. Við verjum miklu fé í skólana, við erum stolt af skólunum en þar er brottfall. Brottfall nemenda er mjög hátt. Við þurfum að byggja upp skólakerfi sem einkennist af meiri sveigjanleika og meiri fjölbreytileika sem hentar nemendum betur.

Við þurfum að fara í gegnum allt sviðið á Íslandi og búa til samfélag sem hentar. Og þá þurfum við að breyta stjórnmálunum. Það er það sem Björt framtíð vill gera, við viljum búa til þjónandi stjórnmál á Íslandi, stjórnmálamenn sem hlusta, sem tala saman, skoða samfélagið og mynda þannig sannfæringu til að leiða það í þessa átt, í átt að þessum grunni sem við getum öll staðið á, öll blómstrað. Við viljum ryðja burt pontum sem henta ekki.

Er þetta hægt? Já, ég held að það sé hægt. Ég ætla að vitna, með leyfi forseta, í Mary Poppins:

„Allt er hægt, bara ef þú trúir á það.“

Kæru landsmenn. Ef þið viljið breytingar, ef þið viljið breyta þessu samfélagi, ef þið viljið það samfélag sem ég hef verið að lýsa í ræðu minni, þá kjósið Bjarta framtíð.