141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Góðir landsmenn. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eftir kosningarnar 2009 kom fram að lykilverkefnið væri að endurreisa traust í íslensku samfélagi og orðspor Íslands á alþjóðavettvangi. Þetta var markmið sem ég held að við öll í þessum sal höfum getað verið sammála um. Það var og er brýn nauðsyn að almenningur í landinu treysti stjórnvöldum og Alþingi ekki síst í ljósi þeirra erfiðu viðfangsefna sem biðu þings og þjóðar á kjörtímabilinu. Og nú þegar hillir undir lok þess er fróðlegt að skoða hvernig ríkisstjórninni tókst til við það verkefni sem ætti að hafa verið eitt meginmál íslenskra stjórnmála.

Á hveitibrauðsdögum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var strax ljóst að þau fögru fyrirheit voru orðin tóm, ekki nema forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafi verið svo skyni skroppnir að þeir hafi talið endurreisn á trausti grundvallast á linnulausum stríðsrekstri og hefndaraðgerðum. Hér varð hrun, er mantran sem landsmenn hafa fengið að heyra ótal sinnum frá ríkisstjórninni. Í hvert sinn sem hún heldur af stað í nýjan herleiðangur gegn fólkinu í landinu eiga þessi þrjú orð að réttlæta allan ófriðinn, skerðingarnar, skattahækkanirnar og niðurskurðinn. Við uppskerum eins og við sáum.

Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að traust almennings á Alþingi hefur hrunið í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar frá því hún tók við völdum undir pilsfaldi Framsóknarflokksins 1. febrúar árið 2009. Samkvæmt síðustu mælingum báru einungis 10% Íslendinga traust til Alþingis, þessarar elstu löggjafarsamkundu veraldar.

Vissulega er auðvelt fyrir ríkisstjórnina að kenna öðrum um þetta ástand. Stjórnarandstöðunni fyrir að sinna stjórnarandstöðu, hagsmunasamtökum fyrir að sinna hagsmunum umbjóðenda sinna, venjulegu launafólki sem er að reyna að verja sig og fjölskyldu sína og svo mætti lengi telja, en það er ekki sannleikanum samkvæmt. Stundum er auðveldara að sjá flísina í auga náungans en bjálkann í eigin auga. Það á ekki síður við um núverandi ríkisstjórn en okkur hin.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skilur eftir sig langa slóð ófriðar og brostinna loforða. Hver kannast ekki við skjaldborg heimilanna? Loforð um stórfellda atvinnuuppbyggingu og tugi þúsunda nýrra starfa, vonbrigði verkalýðshreyfinga og atvinnulífs vegna svikinna samninga, 13 milljarða samdrátt í útgjöldum til málefna eldri borgara landsins. Þessu til viðbótar má svo nefna mál sem beinlínis hafa aukið á sundrung, hvort tveggja hér í sölum Alþingis og meðal þjóðarinnar, landsdómur, stjórnarskrá, aðildarumsókn að Evrópusambandinu. En þyngsta höggið sem Alþingi hefur hins vegar þurft að þola stafar af hinni fordæmalausu afstöðu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún vanvirðir dóma Hæstaréttar og ekki síður þann þjóðarvilja sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslum árin 2010 og 2011. Þar lá fyrir skýr og einbeittur vilji almennings en engu að síður kaus ríkisstjórnin að skora þjóðina á hólm. Í stað þeirra væntinga og trausts sem borið var til nýrrar ríkisstjórnar á upphafsdögum hennar má segja að vegna þeirra stjórnarhátta sem viðgengist hafa á kjörtímabilinu hafi þær vonir brostið og traustið í samfélaginu er hverfandi. Við því þarf að bregðast í komandi kosningum.

Verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að endurnýja traust og trúverðugleika. Styrk stjórn og skýr framtíðarsýn eyðir þeirri pólitísku óvissu sem hefur skotið rótum á Íslandi á undanförnum árum. Það er forsenda þess að íslenskt efnahagslíf öðlist að nýju tiltrú, traust og bjartsýni.

Íslendingar geta hafið nýtt skeið vaxtar og stöðugleika að loknum kosningum í vor. Sjálfstæðisflokkurinn mun eiga á næsta kjörtímabili frumkvæði að víðtækri þjóðarsátt þar sem stjórnvöld, verkalýðshreyfing, atvinnurekendur og helstu hagsmunaaðilar setjast að sama borði og standa ekki upp frá því verki fyrr en tekist hefur að byggja undir víðtæka sameiginlega sátt um helstu verkefni hins opinbera, um þróun vinnumarkaðar og samskipti við aðrar þjóðir.

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að hafa forustu um sókn til bættra lífskjara. Með hófsemd í skattheimtu og réttri forgangsröðun verður unnið í þágu heimila og fyrirtækja. Á þann veg einan er unnt að leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi, auknum kaupmætti og fjárhagslegu sjálfstæði heimila og íslensku þjóðarinnar. Virðing fyrir einstaklingsfrelsi, samhjálp borgaranna, atvinnufrelsi og verðmætasköpun eru leiðarstefin hér.

Góðir landsmenn. Sameiginlega eigum við Íslendingar hvergi að hvika í þeirri ætlun okkar að koma Íslandi á ný í fremstu röð í samfélagi þjóðanna. Við eigum að skapa þjóðarsátt um að auka lífsgæði okkar allra, skapa tækifæri, tryggja öryggi og tryggja atvinnu. Það er löngu kominn tími til að nýta tækifærin, löngu kominn tími til aðgerða. Það er runninn upp tími til sóknar í þágu almannahags, í þágu heimilanna, í þágu okkar allra.