141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Við stöndum á miklum tímamótum. Liðin eru fjögur ár, heilt kjörtímabil þar sem tækifæri varðandi leiðréttingar á skuldum heimila og fyrirtækja hafa ekki verið nýtt, heilt kjörtímabil þar sem tækifærum til uppbyggingar atvinnulífs hefur verið sóað.

En eftir nokkrar vikur getur þjóðin valið að breyta um kúrs. Allflestum er löngu ljóst að þeirrar breytingar er þörf. Þekkt er úr sögunni að eftir kreppu geta skapast góðar aðstæður til örrar uppbyggingar atvinnulífs og verulega aukins hagvaxtar. Á Íslandi eru sérstaklega góðar aðstæður til vaxtar. Tækifærin til atvinnusköpunar eru óendanleg, aðeins mannshugurinn er takmarkandi.

Atvinna er undirstaða vaxtar og velferðar. Framsóknarflokkurinn telur forgangsverkefni að fjölga störfum og þar gegna lítil og meðalstór fyrirtæki lykilhlutverki. Við viljum útrýma atvinnuleysi úr íslensku samfélagi.

Við framsóknarmenn viljum efla nýsköpun á öllum sviðum atvinnulífs, t.d. í gegnum skattkerfi og rannsóknar- og þróunarstyrki. Til að ýta undir nýsköpun viljum við nýta skattaívilnanir vegna fjárfestinga einstaklinga í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Gríðarleg tækifæri eru í mörgum greinum. Þannig nýta fyrirtæki á borð við Kerecis á Ísafirði og Codland í Grindavík hráefni úr sjávarútvegi, sem áður var hent, til að skapa nýjar afurðir og koma þar líftækni og aðrar greinar þekkingariðnaðarins að máli. En tækifærin eru víða.

Hlutverk ríkisins er að skapa hagstæða umgjörð um atvinnulífið, m.a. með einföldun regluverksins og skattkerfisins.

Við viljum einfalda skattkerfið til að skapa jákvæða hvata fyrir atvinnurekstur og búa einstaklingum og fyrirtækjum umhverfi þar sem frumkvæði, dugnaður og samfélagslegt réttlæti eru í hávegum höfð.

Við viljum skapa stöðugleika með mótun skýrrar stefnu til lengri tíma. Stöðugleiki dregur úr áhættu í rekstri, eykur fjárfestingu og vöxt í atvinnulífinu og skapar aðstæður til fjölgunar starfa.

Við framsóknarmenn höfum allt kjörtímabilið talað fyrir því að nýta tækifærin sem fyrir hendi eru. Við höfum trú á landi og þjóð. Við þurfum aukinn hagvöxt til að standa undir velferðarkerfi allra landsmanna. Það er brýn þörf að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja og við þurfum meiri tekjur til að byggja heilbrigðiskerfið upp á nýjan leik eftir niðurskurð síðustu ára.

Góðir landsmenn. Við framsóknarmenn höfum á undanförnum þingum lagt fram tillögur um sókn í atvinnumálum, tillögur sem lúta að uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs um land allt, allt frá aukningu í kvikmyndagerð og öðrum skapandi greinum yfir í að skapa öllum landsmönnum jafnar aðstæður til atvinnusköpunar, m.a. með jöfnun raforkukostnaðar og aðgengi að ljósleiðaratengingum.

Við viljum nýta og þróa endurnýtanlega orkugjafa. Fáum við umboð ykkar til munum við endurskoða hina pólitísku rammaáætlun í samræmi við niðurstöðu faghópa sérfræðinga. Atvinnuuppbygging sem byggir á okkar hreinu orku er eftirsótt. Okkur hefur tekist á liðnum áratugum að skapa þekkingariðnað sem byggir á orkunýtingu. Þar eru fjölmörg tækifæri sem verðugt er að nýta.

Við ætlum að auka innlenda matvælaframleiðslu og styðja við nýsköpun og fullnýtingu innlends hráefnis. Þar má nefna allar greinar landbúnaðar, m.a. grænu stóriðjuna, garðyrkjuna, en ekki síður sjávarútveginn, fiskeldið og margt fleira mætti nefna. Efla þarf markaðssetningu og styrkja frumkvöðla- og klasastarfsemi í grundvallaratvinnugreinum til að auka arðsemi þeirra.

Ferðaþjónustan er ein af okkar grunnatvinnugreinum, hana þarf að efla með samkeppnishæfu skattumhverfi. Við viljum bregðast við álagi á fjölsótta ferðamannastaði með uppbyggingu þjónustu sem fjármögnuð verði m.a. með svokölluðum náttúrupassa.

Við viljum ná sem víðtækastri sátt um stjórn fiskveiða. Lykilatriði er að sjávarútvegurinn verði áfram eins þjóðhagslega hagkvæmur og kostur er. Við framsóknarmenn munum beita okkur fyrir því að endurskoðun á löggjöfinni byggi á samráði og niðurstöðu sáttanefndar frá hausti 2010.

Framsóknarflokkurinn er flokkur samvinnu og samstöðu. Með samráði og rökræðu munum við öll saman finna skynsamlegustu lausnina á hverju verkefni. Hlutverk stjórnvalda er að skapa stöðugleika og beita skynsemi, aga og raunsæi í efnahagsmálum til að bæta lífskjör fólksins í landinu.

Spurt hefur verið hvort við getum staðið við allar okkar fyrirætlanir. Svarið er já, við getum það öll saman. Við höfum viljann og staðfestuna.

Góðir Íslendingar. Þið hafið valið þann 27. apríl næstkomandi. Framsóknarflokkurinn býður fram krafta sína til að snúa stöðnun í sókn. Framsókn fyrir atvinnulífið. Framsókn fyrir betri lífskjör. Framsókn fyrir Ísland.