141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Góðir landsmenn. Í samfélagi þjóðanna erum við Íslendingar fámenn þjóð, eins og þjóðskáldið Einar Benediktsson kvað á sinni tíð: „Lítil þjóð, sem geldur stórra synda …“ en bætir svo við: „reistu í verki viljans merki, vilji er allt sem þarf.“

Þessi aldargömlu sannindi eiga vel við í þeim aðstæðum sem við Íslendingar höfum verið að glíma við að undanförnu. Land sem var á barmi gjaldþrots fyrir um fjórum árum hefur náð sé ótrúlega vel á strik og er á réttri leið. Staðreyndirnar tala sínu máli. Okkur hefur heppnast í sameiningu að byggja landið upp úr rústum þess hruns sem óheft frjálshyggjan leiddi þjóðina í. Þar með er ekki sagt að verkinu sé lokið, hvað þá að allt sé orðið eins og það var fyrir hrun, enda varla eftirsóknarvert að hafna á ný í sýndarveruleika sem byggði á fölskum hagvexti og gegndarlausum lántökum til að fjármagna neyslu bóluhagkerfis sem hér hafði fengið að skjóta rótum og byggði á vaxandi misskiptingu. Gáum að því að Sjálfstæðisflokkurinn býður hér enn á ný upp á slíkan sjónhverfingahagvöxt.

Þrotlaust starf undanfarin fjögur ár og einbeittur vilji hefur skilað ótvíræðum árangri, en það hefur líka kostað miklar fórnir og erfiðleika hjá fjölskyldum í landinu. En efnahagsbatinn er þrátt fyrir allt einn sá mesti í Evrópu undanfarin tvö ár. Hann er hvorki fenginn með ofvöxnum, ósjálfbærum stóriðjuframkvæmdum né einkavæðingu, heldur með stuðningi við nýsköpun og þróun, vöxt lítilla og meðalstórra fyrirtækja, vexti ferðaþjónustu, tækni- og þekkingargreina, skapandi greina og vaxandi krafti hefðbundinna útflutnings- og samkeppnisgreina.

Lítum á nokkrar staðreyndir. Skuldir íslenskra heimila náðu hámarki undir lok árs 2008 og höfðu þá þrefaldast á 15 árum. Með samþættum aðgerðum hafa skuldir heimilanna lækkað frá árinu 2009 og eru nú á svipuðu róli og í árslok 2006. Á aðeins einu kjörtímabili hefur tekist að snúa halla sem nemur 15% af landsframleiðslu yfir í jafnvægi. Ekkert annað ríki í Evrópu hefur náð slíkum viðsnúningi í ríkisfjármálum eftir að fjármálakreppan reið yfir.

Verðbólgan hefur lækkað úr 17,6% í ársbyrjun 2009 í 4,8% nú. Hið sama gildir um vexti, sem fóru í 18% í kjölfar gjaldþrots Seðlabankans, en eru nú um 6%. Strax eftir hrun rauk atvinnuleysi upp í 9%. Það hefur nú minnkað um nærfellt helming. Vaxtabætur vegna húsnæðislána voru stórhækkaðar. Þannig hefur t.d. vaxtakostnaður hjá 10% tekjulægstu heimilanna lækkað nálægt 45% á ári og miklu fleiri fjölskyldur njóta nú vaxtabóta en áður var.

Í fjárlögum þessa árs er enn betur komið til móts við barnafjölskyldur með því að hækka barnabætur um 30%. Jöfnuður hefur aukist með þrepaskiptu skattkerfi. Nú greiða lægri og millitekjuhópar hlutfallslega minni skatt en þeir sem hæstu tekjurnar hafa. Þannig hefur náðst að lækka skattbyrði á lágar og millitekjur, en því vill Sjálfstæðisflokkurinn nú snúa við.

Það er falskur söngur sem hér er kyrjaður dag eftir dag í löngu máli af hálfu stjórnarandstöðunnar, að ekkert hafi verið aðhafst í málum heimila og atvinnulífs.

Tækifæri til nýsköpunar hafa stóraukist hér á landi í tíð núverandi ríkisstjórnar. Skattumhverfi nýsköpunarfyrirtækja hefur verið stórbætt og stjórnvöld hafa fjárfest í nýsköpun og rannsóknum með því að tvöfalda framlög í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð. Áfram þarf að tryggja að lítil og meðalstór fyrirtæki búi við gott starfsumhverfi og skapa sprotum tækifæri til langtímauppbyggingar. Það er atvinnustefna sem byggir á sjálfbærni og framtíðarsýn.

Það er einmitt á grundvelli sjálfbærni og framtíðarsýnar sem umhverfismál hafa skipað veglegan sess í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar. Ég nefni hér Árósasamninginn sem tryggir almenningi upplýsingar og þátttökurétt í umhverfismálum. Ég nefni sérstaklega rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem nú hefur verið samþykkt.

Varúðarreglan í umhverfismálum er brýn. Fréttirnar af Lagarfljóti sanna að svo hefði betur verið þegar ráðist var í Kárahnjúkavirkjun þar sem kappið bar forsjána ofurliði. Lærum nú af Lagarfljóti og samþykkjum ný náttúruverndarlög á þessu þingi.

Núverandi stjórnarflokkar leggja þunga áherslu á að stjórnarskrárbinda þjóðareign á auðlindum. Ástæða er til að hvetja bæði þing og þjóð til að tryggja að þau áform nái fram að ganga, bæði á þessu kjörtímabili og í upphafi þess næsta, og tryggja að þeim sem standa í vegi fyrir því verði ekki kápan úr því klæðinu.

Góðir landsmenn. Við Vinstri græn viljum halda ótrauð áfram uppbyggingu samfélagsins á þeim grunni sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt, að treysta velferðar- og menntakerfið í sessi, auka jöfnuð og réttlæti, styrkja enn frekar löggjöf á sviði jafnréttis og kvenfrelsis, stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindanna og fjölbreyttu atvinnulífi. Hér þarf raunhæfar leiðir en engar barbabrellur Framsóknarflokksins sem ætlaðar eru til að kaupa fylgi. Ein töfralausn mun ekki duga öllum. Nú eru aðstæður til að draga úr vægi verðtryggingar, jafna stöðu lántakenda gagnvart lánveitendum og til að draga úr greiðslubyrði. Þar verða margir að koma að, m.a. ríkið, bankarnir og lífeyrissjóðirnir. Sú leið sem við höfum verið á er farsælli en leið hægri aflanna sem leiddu hrunið yfir okkur.

Berum hvert og eitt okkar stöðuna nú saman við þá sem var þegar Sjálfstæðisflokkurinn skildi við fyrir fjórum árum. Fórnum ekki þeim árangri sem náðst hefur. Stöndum saman um þann árangur. Sýnum ábyrgð og látum ekki gylliboðin villa okkur sýn. Sígandi lukka er farsælust. — Góðar stundir.